19 apríl 2009

Ísland

Mikið er landið okkar fallegt.
Hvort heldur er að sumri eða vetri.
Ég var að koma heim eftir fjóra yndislega daga á fjöllum. Krepputunga, Askja, Dettifoss og fleiri fallegir staðir voru heimsóttir.
Ég hef ekki komið í Öskju síðan sumarið 1968 og mér þótti afskaplega gaman koma þangað aftur eftir rúm 40 ár. Forðum daga var það ekki landslagið sem vakti mesta athygli mína - auðvitað var forvitnilegt að sjá stað sem héti Víti, en gestabók í trékassa á vörðu þótti mér merkileg. Nú heyrir hún víst sögunni til.
Svo þóttu mér líka merkilegir tveir Frakkar sem voru þar og annar var að moka í sig gulum kúlum úr dós. Mér varð starsýnt á hann og ég hugsaði að þetta hlyti að vera rosalega gott því maðurinn mokaði kúlunum upp í sig af svo mikilli ánægju. Mörgum árum seinna fékk ég að smakka þessar gulu kúlur og þá kölluðust þær maísbaunir.
En aftur til nútímans. Herðubreið skartaði sínum allra fegursta vetrarbúningi, hvar sem á hana var litið.
Ég gæti skrifað langa ritgerð um þessa yndislegu daga á fjöllum í frábæru veðri með góðum ferðafélögum. En ég held ég eigi bara ekki nógu góð orð til að lýsa ævintýrinu.
Nú er ég komin heim í Skógarkot og hef notfært mér þann mesta lúxus sem heimili mitt hefur að bjóða - vantssalerni og gott bað. Það verður ekki slæmt að hátta í hreint og fínt rúm, þægilega þreytt, með hugann fullan af fallegum myndum af íslenskri náttúru.

|