17 mars 2006

Góður gestur

Þá er Garpur litil kominn aftur til okkar Kolgrímu.
Eigandinn er að leika sér norður í landi svo Garpur leikur sér hjá okkur Kolgrímu á meðan. Þau eru ótrúlega skemmtileg. Sjá þau borða saman, þau fara í kappát eins og þeim sé mikið í mun að bjarga sem mest af matnum frá hvort öðru. Kolgríma hefur varla litið við matnum sínum alla vikuna, snúið upp á sig og gert mér skiljanlegt að þetta sé ekki alveg það sem hún hafði óskað sér. En nú skal hún frekar éta matinn en láta þennan Garp gæða sér á honum. Svo eru þau alveg að springa.
Það hefur verið hræðilega mikið að gera í vinnunni þessa vikuna og ég er eins og undin tuska. Komandi helgi hefur ekki verið ráðstafað í glamor, glys og glingur heldur bara eins mikla vinnu og ég kemst yfir.
En eitt er víst, ég ætla að sofa frameftir á morgun, vakna kl. 7.30, færa mér kaffi í rúmið, hafa það virkilega huggulegt og njóta þess að þurfa ekki að fara strax á fætur. Teygja úr tánum og lesa góða bók.
Ég má til með að láta þess getið að ég hef ekki gáð til veðurs, viðrað köttinn, farið út að veiða, eða hvað sem menn vilja kalla það, í þrjá daga. Ég er dauðhrædd um að þetta verði til þess að ég þyngist um fleirihundruð og fimmtíu kíló svo ég verð að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir.
Ég ætla bara rétt að vona að ég verði ekki 100 ára úr því að það er búið að banna mér að gera allt sem er gott og skemmtilegt. Það er svo sem allt í lagi að sleppa því að reykja og drekka en að mega ekki borða, það er of mikið af því góða - hvar endar þetta??? Eins gott að læknirinn minn fatti ekki hvað mér þykir gott að liggja í heitu baði, hann myndi örugglega finna ástæðu til að banna mér það.

|