21 apríl 2007

Garpur og gsm

Gemsinn minn hefur fundið sér nýtt hlutverk.
Ég keypti þennan netta síma af því að hann er svo dömulegur. Ég er bara ekki nógu mikil dama fyrir svona smátæki og núna er ég búin að missa hann svo oft út úr höndunum að hér eftir er bara hægt að nota hann sem vekjaraklukku.
Kannski ég fari að horfa eftir höggvörðum gsm fyrir skrifstofustúlkur.
Garpur er hjá okkur Kolgrímu í helgardvöl þar sem blöðrujeppaeigendur á Egilsstöðum eru að nota síðustu snjóalög til að leika sér á fjöllum.
Aumingja Garpur slasaðis sl. þriðjudag og er með annað lærið rakað og samansaumað. Þetta er heljarinnar sár, svona eins og ef ég væri með 25 cm skurð á öðru lærinu.
Garpur má ekki fara út, enda er ausandi rigning. Honum finnst notalegt að breiða úr sér í stofuglugganum og horfa á lífið í garðinum, sem er reyndar ekki mikið í þessari rigningu. Svo kemur Kolgríma og nusar af honum og horfir á hann samúðarfullu augnaráði, þannig að líðan Garps er eftir atvikum góð.

|