Systur í spandreisu
Við Anna Guðný brenndum norður í land í gær.
Þegar við vorum að aka frá Egilsstöðum kl. 8 um morguninn voru komnar 2 þotur á flugvöllinn, ein var að lenda og ein var að koma inn til lendingar - bara eins og í útlöndum.
Það var greinilega að drífa að gesti í álveisluna á Reyðarfirði.
Við systur höfðum með okkur nokkra nestiskassa, enda var ekki gert ráð fyrir að koma aftur heim fyrr en um kvöldið. Við skiptum verkum, ég sá um grænmeti og ávexti en hún um afganginn af nestinu.
Þegar við ókum um Heiðarendann spurði ég systur mína hvort hún hefið ekki örugglega tekið með diska.
AGÁ: "Diska, jú Rannveig ég var að sýna þér geisladiskana sem ég tók með"
RÁ: "Ja, ég var nú að meina matardiska."
AGÁ: "Hva??!!! eins og ég hafi klikkað á því."
Svo var bara ekið sem leið lá og stoppað í fjóskaffinu í Mývatnssveit, það er nokkuð sem ég mæli með. Þar er æðislegt kaffi og svo fær maður að fara í fjósið og heilsa upp á kýrnar og kálfana. Við kíktum aftur þar við í bakaleiðinni og þá var mjaltatími og það voru borin til okkar staup með spenvolgri mjólk - alveg rosalega huggulegt.
Nú það var sól og blíða, landið skartaði sínu fegursta þar til við komum í Víkurskarð, þar var svarta þoka. Við ákváðum að láta það ekki á okkur fá enda væri örugglega góð raflýsing á Glerártorgi. En svo var þetta allt í lagi, það var sól á Akureyri.
Við skrunuðum síðan í gegnum mollin og smollin og ég græddi litlar 70 - 130.000 á þessum innkaupaleiðangri, eftir því hvernig dæmið er reiknað.
Hvernig? nú ég ákvað að láta skynsemina en ekki snobbið ráða för og keypti borðstofuborð og sófaborð í RL-búðinni. Massíf eikarborð, ég endaði alltaf aftur og aftur við þessi borð, sama hvað ég fann mikið af fínum borðum í fínni búðum. Ég meira að segja fann nákvæmlega sömu borðin í "betri" búð og þar voru þau á 100% hærra verði en í Rúmfatalagernum.
Úbbbss, gleymdi næstum einu - ég lenti í hjúskaparmiðlara á Glerártorgi - spennandi að vita hvað kemur út úr því.