05 júní 2007

Árskort í íþróttahúsið

Ég gerði smá verðkönnun í dag.
Heilsuátakið sem ég sagði ykkur frá hér fyrir mörgum dögum fer frekar svona hægt af stað. Ég nota mér annríki Nínu vinkonu til afsökunar og drekki sorgum mínum bara í ís meðan hún er út og suður og mest fyrir sunnan að halda upp á eitthvert útskriftarafmæli, knúsa barnabarnið og svona.
Ég hef svo sem farið í eina og eina skógargöngu eða stafagöngu eða út að hjóla. En það er bara ekki nóg svo ég hringdi í íþróttahúsið, spjalaði við Fríðu og fékk hagnýtar upplýsingar. Ég spurði hana nú bara svona mest í gríni hvort það væri kannski selt inn eftir vigt. Nei, nei, alls ekki vildi hún meina það. Árskortið í þrek, leikfimi og sund kostaði 40.000 kall fyrir mig.
Nú það er náttúrulega gjafverð, ríflega 3.000 á mánuði og ef ég druslast til að mæta þrisvar til fjórum sinnu í viku er þetta náttúrulega bara tombóluprís.
En það er ekki allt sem sýnist. Ég fór að segja Ragnheiði, yfirmanni mínum, frá þessu og þá vissi hún allt um þetta því þau hjónin væru nýbúin að kaupa árskort á 50.000 kall fyrir þau bæði.
Bíddu nú, kostar bara 10.000 kall fyrir karlmenn???
Nei, málið er ekki svona einfalt. Ég fór inn á bað og horfði á mig í spegli og sá að það væri greinilegt að það væri selt inn eftir vigt.

|