Sólin skín ...
... sæt og fín á Fljótsdalshéraði í dag.
Af því tilefni hjólaði ég í vinnuna, hreystin uppmáluð eftir að vera loksins góð eftir þennan svarta dauða eða spönsku veiki sem hrjáði mig í síðustu viku. Ég hef bara ekki orðið svona hundlasin síðan á síðustu öld.
En nú er komin betri tíð með blóm í haga.
Fór í gönguferð í skóginum um helgina og þegar ég kom niður í framtíðarhverfið mitt þá hitti ég væntanlegan granna minn Hákon Aðalsteinsson. Við Konni erum sammála um að Bjarkarselið sé besta gatan í Selskógi. Hann sýndi mér slotið sitt. Eldhúsinnrétting frá Tyrklandi - gleymdi að spyrja hann hvort Halim Al hefði útvegað honum hana.
Bæjaryfirvöld keppast við að gera hverfið mitt fínt áður en ég flyt þangað, þökuleggja og snyrta.