Dansiball
Brá mér í Valaskjálf í gær.
Þar hefur ekki verið haldið ball í háa herrans tíð svo það voru stórtíðindi að boðað var til dansleikjahalds. Sjálfur Magni Supernova ásamt hljómsveit sinni sá um fjörið.
Ég var satt að segja ekki í neinu stuði til að fara, en þar sem Toyota bauð þeim sem reynsluóku bíl hjá þeim í gær, á ballið og Nína vinkona hafði fyrir því að reynsluaka fyrir tvo aðgöngumiða, þá var víst ekki um annað að gera en hafa sig af stað.
Ég varð að byrja á að hreinsa hárlubbann af fótleggjunum, hef ekki mikið verið að spá í hárvöxtinn undanfarið og ekki hreinsað leggina síðan ég var á Tenerife. Það mátti því varla á milli sjá hvort ég eða Kolgríma vorum með loðnari sköflunga.
Ég var ekki í góðri æfingu svo ég hreinsaði smá skinn með og þar fór ásetningurinn um að vera í pilsi. Plástraðir leggir eru ekkert flottir, svo það voru bara síðbuxur.
Það var pakkfullt út úr dyrum og þegar ég vildi komast heim þá var ekki vinnandi vegur að hleypa mér út um aðaldyrnar því það hékk fullt af fólki á hurðarhúninum. Ég var því leidd inn í eldhús og hleypt út bakdyramegin.
Í dag skín sól og ég er farin í gönguferð í skóginum.
Góðar stundir.