09 maí 2007

Í upphafi skyldi endinn skoða ...

... en alls ekki spá í það sem er þarna á milli.
Þá myndi maður aldrei gera neitt.
Ég er gersamlega búin að fá upp í kok. Ég er þreytt, þreytt, þreytt.
Þessar innansleikjur eru mun efnismeiri og seinafgreiddari en ég hafði reiknað með. Ég var að vonast til að ég myndi klára í kvöld, en nei, ó nei, minnst 6 tíma verk eftir. Mér er skapi næst að sækja skóflu og moka þessu dóti upp á Sorpu, en þar sem þetta er nú aðallega eldhúsdótið sem eftir er, þá er víst gáfulegra að taka það með í Skógarkot.
Ég var búin að panta flutning á gáminum á morgun en ég verð að fá honum frestað til föstudagsins. Ég vonast samt til að geta afhent húsið á laugardaginn þó samningurinn segi á þriðjudaginn. Þá er ég bara laus allra mála.
Það er sko á hreinu að ég ætla ALDREI aftur að flytja og næst þegar búslóðinni minni verður pakkað niður verður það þegar dætur mínar pakka mér saman og senda mig á elliheimili.
Eða kannski öllu heldur þegar örverpið sendir mig á elliheimli, frumburðurinn vill meina að 18 ár sé ekki svo mikill aldursmunur og að við verðum saman á elliheimilinu.
En ég fer í það í næstu viku að einbeita mér að því að hlakka til sumarsins og að Skógarkot verði tilbúið.

|