05 maí 2007

Síðasta nóttin

Þá er komið að því.
Í nótt er síðasta nóttin okkar Kolgrímu hér á Reynivöllunum áður en við förum á verganginn.
Ég afhendi húsið að vísu ekki fyrr en eftir 10 daga, en það þarf að fara með öll húsgögnin á morgun og þar með talið rúmið mitt.
Um næstu helgi koma systur mínar í Soroptimstaklúbbi Austurlands og gera allt hreint og fínt fyrir afhendingu.
Þetta verða ekki eins þægilegir flutningar og flutningarnir í sögunni um Lötu stelpuna, sem nágrannarnir kölluðu lötu og leiðinlegu Grétu. Þar fóru húsmunirnir sjálfir í burtu meðan Gréta svaf.
Ég verð sjálf að sjá til þess að þeir fari út úr húsinu og á morgun koma nokkrir hjálpsamir vinir og vandamenn og bera eigur mínar út í gám, þ.e.a.s. það sem ég er ekki þegar búin að bera út.
Skrýtið að hugsa til þess að fyrir hátt í 5 árum þegar við fluttum hingað þrjú inn í þetta hús, við Anna Berglind og Finnur, þá var það mjög fjarri mér að ég myndi flytja ein úr húsinu eftir svona stuttan tíma.
En svona er lífið, eins og konfektkassi og þú veist aldrei hvaða mola þú færð.

|