24 apríl 2007

Innlánsdeildarbók

Ótrúlegustu hlutir koma upp í hendur mínar þessa dagana.
Í gær var það gamli, græni KRON sparibaukurinn minn sem ég hélt að væri löngu búinn að yfirgefa mig.
Ég man eftir að hafa verið að reyna að plokka hann upp með silfurtertuhnífnum hennar mömmu. Ég man að ég fann það út að ef ég lét hann falla úr góðri hæð á gólfið þá sprakk hann upp, peningarnir flóðu um gólfið og ég gat skotist og keypt mér apótekaralakkrís. Ég hef greinilega verið iðin að sprengja upp baukinn því með honum fylgir innlánsdeildarbók og skv. henni voru lagðar inn 81 króna og 75 aurar þann 22. október 1963 og rúmum tveimur árum seinna hef ég verið búin að öngla saman 127 krónum og 46 aurum sem eru lagðar inn 14. desember 1965. Þá var staðan á innlánsdeildarreikningi mínum í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis, höfðustóll og vextir, 216 krónur og 8 aurar. Þessar færslur eru handfærðar með nettri rithönd.
Það væri gaman að vita hvað hefði orðið um þetta fé? Því hefði örugglega verið betur varið í kaup á apótekaralakkrís en inn á þennan innlánsdeildarreikning.

|