04 maí 2007

Kortalaus í borginni

Mér líður hálf undarlega hér í Reykjavík.
Ég á mjög erfitt með að lenda í því að vera á síðustu stundu, það fer ferlega með mig.
Í gær þegar ég kom heim úr vinnunni kl. tuttugu mínútur fyrir fimm, þá mundi ég eftir því að ég átti eftir að pakka niður fyrir borgarferðina og átti að vera mætt út á flugvöll eftir 20 mínútur.
Ég dreif einhverjar tuskur sem ég taldi vera föt, ofan í tösku og brunaði út á völl.
Þegar ég var að tékka mig inn uppgötvaði ég að ég var ekki með peningaveskið og þar sem var heilt korter í brottför taldi ég mig hafa tíma til að skjótast heim og sækja budduna, sem ég og geri.
Fann hana auðvitað ekki svo ég snarast til baka og þegar ég kem aftur út á völl stendur starfsmaður út á bílaplani og kallar; Fljót, fljót, hlauptu, vélin bíður eftir þér. Svo ég hljóp í gegnum flugstöðina, út á völl og upp í vél. Ég heppin, í sæti nr. 13 og þurfti að labba fram hjá öllum farþegunum.
Ekki tók betra við þegar ég var lent í Reykjavík og ætla að kveikja á símanum. Hann var bara dauður og ég bölva því í sand og ösku að hafa skipt úr Nokía síma yfir í Sony Eriksson því ég hafði gleymt hleðslutækinu heima og dætur mínar eiga báðar Nokía. En Selma bjargaði mér.
Svo til að kóróna þessar hrakfarir, þá kom það í ljós þegar ég fór í háttinn og fór að kíkja í ferðatöskuna að ég hafði hent ofan í hana þvottastafla sem ég hafði verið að brjóta saman af snúrunni heima en náttfötin mín voru hvergi sjáanleg.
Jæja, ég vona að ég finni sjálfa mig aftur þegar ég verð búin að standa í þessu pakkelsi, en það eru 11 dagar fram að afhendingu.

|