13 maí 2007

Mæðradagur

Þá er kosningum lokið og kominn mæðradagur.
Ekki hef ég nú heyrt í dætrum mínum í tilefni dagsins, ég geri ráð fyrir að þær séu ekki komnar á fætur eftir vöku í nótt.
Þegar ég var krakki í Kópavoginum fór maður til Þórðar á Sæbóli og keypti blóm á sérstöku mæðradagstilboði til að færa mömmu.
Ég nenni ekki að spá í þessar kosningar hér, þið kíkið bara á mbl.is. En það var gaman að vera í kjörstjórn og ég er núna ýmsu nær um hverjir búa í sama sveitarfélagi og ég. Mér fannst eiginlega merkilegasta upplifunin að sjá fólk sem í mínum huga eru enn börn, vera komið með hrukkur og önnur einkenni þess að aldurinn er að færast yfir. Krakkar sem voru skólasystkini dætra minna mæta á kjörstað með hálfstálpaða krakka í eftirdragi.
Ég er að spá í að hafa enga spegla í Skógarkoti - ég ætla bara að halda áfram að vera 25 ára og vera ekkert að horfast í augu við þá staðreynd að skv. skilríkjum er ég miðaldra kona.

|