Ráðskonustörf
Lífið hjá okkur Guðnýju Rós gengur ágætlega.
Við erum mest tvær einar hér á Faxatröðinni með kisurnar okkar. Kolgríma er orðin sátt við að búa hér og það hefur verið ákveðið að þó ég haldi áfram vergangi mínum í sumar muni Kolgríma búa hér þar til ég verð búin að koma okkur fyrir í Skógarkoti. Það er ekki hægt að leggja á hana allt þetta rót.
En ég er sem sagt ráðskona hér á bæ meðan húsmóðirin er til lækninga í höfuðborginni. Ég var eitthvað hvumpin við unglinginn í morgun þegar hún eymdin uppmáluð tilkynnti mér að hún treysti sér ekki í skólann, henni væri svo kalt og illt. Nú, ég sagði henni að úr því að hún færi ekki í skólann þá myndi hún nota daginn til að taka til í herberginu sínu og læra. Mér leiðist aumingjauppeldi.
Sjálf var ég hreystin uppmáluð og hjólaði í vinnuna, enda í heilsuátaki. Eitthvað fór nú heilsunni að hraka þegar leið á morgun og í hádeginu var ég keyrð heim af því að mér var svo kalt og mér var svo illt.
Sjálf hef ég notað daginn til að skjálfa undir teppi í svellþykkum sokkum en unglingurinn hefur haft sína hentisemi.