02 júní 2007

Allt í plati

Þá er búið að upplýsa það að Hollendingar voru bara að plata okkur.
Þátturinn Viltu vinna nýra, var bara brella til að vekja athygli á málefnum líffæraþega og ég verð að viðurkenna að eins og ég var hneyksluð á þessum þætti þegar ég hélt að þetta væri alvöru þá get ég líka sagt að þetta var stórsnjallt.
Það veitir ekki af að efla umræðuna um líffæragjafir bæði hér á landi og annars staðar.
Það er hverjum manni mikið áfall að fá að vita að hann sé kominn með banvænan sjúkdóm. Þegar við það bætist að eina vonin um að fá að lifa áfram sé sú að einhver sé tilbúinn að gefa part af sjálfum sér, þá verður staðan enn verri.
Að upplifa það að fólk fer að forðast mann af því að það þorir ekki að spyrjast fyrir í hverju það felst að gefa líffæri, að horfa upp á ástvin sinn missa kjarkinn af því að honum finnst umhverfið hafa hafnað sér. Það er alveg nóg að að berjast fyrir lífi sínu þó annað bætist ekki við.
Ég vil hvetja alla til að staldra við og spyrja sjálfa sig hvort þeir hafi not fyrir líffæri sín eftir dauða sinn. Hvort þeir séu e.t.v. tilbúinir að segja sínum nánustu að líffærin megi nota til að bjarga mannslífum ef dauðann ber skyndilega að garði. Að við gerum okkar nánustu grein fyrir afstöðu okkar í þessum málum því það eru þeir sem þurfa að svara spurningum um hugsanlega líffæragjöf eftir okkar dag.

|