22 október 2008

Ferðir og ferðalög

Það eru dapurlegar fréttir sem maður les um framkomu við landann í útlöndum.
Ég get ekki sagt að mig langi mikið til útlanda og ég sé ekki fyrir mér að ég eigi eftir að fara út fyrir landsteinana næstu misserin.
En það gerir ekkert til, við eigum svo fallegt land sem gaman er að ferðast um. Ég þarf ekki annað en að setja á mig gönguskóna og halda út í hina fögru náttúru Fljótsdalshéraðs. Svo ekki sé nú talað um alla fegurð Austurlands og Íslands í heild.
Nei, ég kvíði því ekki að halda mig heima við næstu árin.
Mér þykir verra með unga fólkið sem er að halda út í heim og getur átt von á óblíðum móttökum fyrir það eitt að vera Íslendingar.
En við skulum líta í eigin barm. Hversu oft erum við ekki búin að koma illa fram við einstaklinga fyrir það eitt að vera frá einhverjum ákveðnum löndum.
Annar tengdasonur minn, hann Mirek, er frá Póllandi og þess vegna hefur það alltaf stungið mig í eyrun hvernig talað er um Pólverja hér á Íslandi. Við dæmum fólk frá öðrum löndum eftir einhverjum (rang-)hugmyndum sem við höfum um viðkomandi land.
Danir fara í danska hólfið, Pólverjar í pólska hólfið, Asíufólk í asíska hólfið og svo framvegis. Við metum ekki einstaklingana heldur dæmum þá út frá þjóðerni.
Ég vona að þetta ástand sem nú ríkir kenni okkur þá lexíu að kynnast fólki út frá mannlegum gildum en ekki út frá landafræðinni.
Hinn tengdasonur minn, hann Jón Árni sem kemur líka úr fyrrum kommúnistasamfélagi, Norðfirði, hann á afmæli í dag og ég óska honum til hamingju með daginn.
Speki dagsins á almanakinu mínu á vel við tíðarandann: Svikið loforð er eins og löðrungur í andlitið. Loforð sem staðið er við er betra en dýrasta kampavín.

|