Spennufall
Jæja, við sjáum þó alla vega til lands.
En það er þungur róður framundan og það er víst að þegar við loks náum landi þá verða ansi margir orðnir máttfarnir.
Það er alla vega gott að það er búið að ganga frá málum gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðnum þó það sé neyðarbrauð að þurfa að þyggja aðstoð. En það voru ekki margir kostir í stöðunni.
Í gær var svo mikil spenna búin að safnast fyrir í sálu minni að ég var farin að rifja upp ýmis orð sem ég hef ekki tekið mér í munn síðan einhvern tíma á síðustu öld. Alls konar orð sem ekki eru prenthæf. Ég var farin að óska nokkrum einstaklingum alls hins versta.
Það eru blikur á lofti hér á Egilsstöðum. Það er búið að segja upp 30 manns í Malarvinnslunni og það eru örugglega uppsagnir yfirvofandi á fleiri stöðum. Það verður erfiður vetur hjá mörgum barnafjölskyldum hér sem annars staðar á landinu.
Það verða ekki sérlega gleðileg jól á þeim heimilum sem missa helminginn og kannski ríflega helminginn af framfærslutekjunum og allir eru bundnir á skuldaklafa út af íbúðakaupum o.fl.
Það er mjög brýnt að fundin verði leið til að koma í veg fyrir að fjöldi heimila verði gjaldþrota og að fólk sem af bjartsýni og eljusemi hefur verið að koma sér þaki yfir höfuðið standi uppi eignalaust þegar loks við náum landi eftir þetta hrun bankanna.
Það er yndilegt veður á Fljótsdalshéraði og mig langar mest til að fara út í skóg og viðra mig. Kannski ég bara láti verða af því að haltra með mína löskuðu löpp út í náttúruna - það kyrrir hugann og byggir upp sálina.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er góð sem endranær: Ef áform þín hafa mistekist athugaðu hvot ekki finnist einhver önnur betri leið sem þú hefur ekki uppgötvað.
Góðar stundir.