05 nóvember 2008

Fjáröflun í kreppunni

Í gær komu tvær væntanlegar fermingarstúlkur í Skógarkot.
Þær voru að safna fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar. Sem betur fer var ég með skotsilfur í dós svo ég gat látið þær hafa smávegis í baukinn.
Nú er akkúrat að koma sá tími þegar krakkarnir fara á stúfana að afla fjár til nemendafélaga eða íþróttastarfs og mér finnst mjög mikilvægt að við fullorðna fólkið tökum vel á móti þeim.
Auðvitað er þröngt í búi á mörgum heimilum en flestir geta nú séð af fáeinum krónum. Krakkarnir hér á Egilsstöðum hafa staðið sig mjög vel með jólakortasölu, klósettpappírssölu, sölu á bakkelsi o.fl. fyrir Hött, fimleikadeildina, í ferðasjóð o.s.frv. og mér finnst það samfélagsleg skylda okkar íbúanna að gera okkar besta að í að styðja við þetta starf.
Ég man þegar ég var skátastúlka í Kópavoginum og maður var sendur í hús, það var ótrúlega niðurdrepandi að fá kaldar móttökur.
Nú er bara að gæta þess að eiga nokkra hundraðkalla handbæra, nú ef ekki, þá alla vega sleppa því að vera með kreppusöng framan í börnin sem banka á dyrnar - eins og ég hef heyrt að hafi gerst hér. Það er alger óþarfi að vera með ónot við saklausa krakka sem leggja sitt af mörkum í fjáröflun.
Enda er efnahagsástandið síst þeim að kenna.

|