Viðsnúningur
Mér varð um og ó sumarið 1997 þegar frumburðurinn hélt út í heim.
Hún réði sig sem au pair í Warsjá í Póllandi og mér fannst hún vera að fara í afskaplega famandi veröld frá því sem ég þekkti.
Allar fréttir sem við fengum frá Austur Evrópu á þeim tíma voru á einn veg, vöruskortur og fátækt.
En Gunnhildur mín lét áhyggjur mínar sem vind um eyru þjóta og hélt á vit ævintýranna.
Ég var ekki í rónni fyrr en ég var búin að fá þær fréttir að hún væri komin heilu og höldnu á leiðarenda. Hvað vissi ég svo sem um samgöngur í Póllandi? Myndin sem fjölmiðlar höfðu dregið upp lýsti öllu þarna fyrir austan svo úr sér gengnu að ég átti allt eins von á að frumburðurinn væri týndur einhvers staðar í ónýtri járnbrautalest eða einhverju enn verra. Svo myndi hún kannski bara ekki fá almennilegt að borða. Einhver ráðlagði henni að taka með sér ársbyrgðir af dömubindum því svoleiðis munaðarvarningur fengist ekki í búðum í Póllandi.
En áhyggjur mínar voru ástæðulausar. Gunnhildur var sæl og ánægð með lífið í Warsjá. Hún sagði að hún hefði það alveg eins gott og heima og það væri enginn skortur á neinu. Pólverjar væru yndislegir þótt þeir væru ekki helteknir af lífsgæðakapphlaupi eins og Íslendingar.
Hún hitti líka ástina sína hann Mirek, hann flutti með henni til Íslands og þau giftu sig á sjómannadaginn 1999.
Til skamms tíma hafa þau lifað góðu lífi í Reykjavík.
En nú er heldur betur að hlutirnir eru að snúast við. Nú er komið að foreldrum Mireks að hafa áhyggjur af honum í fátæktinni á Íslandi. Fjölmiðlar ytra draga upp mjög dökka mynd af ástandinu og nú eru það foreldrar Mireks sem hafa áhyggjur af því að hann fái kannski bara ekki almennilegt að borða á Íslandi.
Svona geta hlutirnir snúist við.