25 október 2008

Aftur til fortíðar

Það er alveg ótrúlega fallegt veður í dag.
Ég dreif mig út og fór upp að vatnstankinum sem er hér ofan við húsið mitt. Þvílíkt dýrðarinnar útsýni sem er þaðan. Allur fjallahringurinn og alveg út að sjó. Mikið afskaplega er sveitin mín falleg. Ég fór bara næstum að syngja ættjarðarlög. Blessuð sértu sveitin mín. Kolgríma kom mjálmandi á móti mér þegar ég kom aftur niður í götuna mína og fylgdi mér síðasta spölinn heim.
Það hefur verið um það rætt undanfarið að við séum komin aftur til ársins 1975, Abba og Vilhjálmur Vilhjálmsson eiga vinsælustu tónlistina, gjaldeyrishöft, óðaverðbólga í augsýn o.s.frv.
Ég hef bætt um betur og keypti mér þessa fínu vetrarkápu í Sentrum í vikunni. Hún minnir óneitanlega á gömlu Álafossúlpurnar. Dásamleg flík. Svo keypti ég mér líka þá bestu skó sem ég hef fengið í 30 ár. Þykkbotna leðurskó með grófu mynstri.
Mér er ekkert að vanbúnaði að taka á móti vetrinum.
Við Maggi erum búin að fylla alla frystana okkar af kjöti og fiski, við erum rétt eins og langömmur okkar og langafar hvað forðasöfnun varðar. Þetta er reyndar ekki súrsað, saltað og reykt í dag. Það vantar bara maðkað mjöl í tunnu, en ég á Vídalínspostillu svo það væsir ekki um okkur.
Nei, ég kvíði ekki vetrinum, verst að starfmenn bæjarins skyldu stela öllum eldiviðnum sem ég var búin að draga að mér.
Það verður kósýkvöld í Skógarkoti í kvöld. Arineldur, súkkulaði og ís.

|