Það er ekki að spyrja að
... hverjir eru vinir okkar.
Ég segi það enn og aftur, allar jólagjafirnar frá mér þetta árið verða keyptar hjá Jakúp í Rúmfatalagernum.
Kreppan hefur vakið upp hina myndarlegu húsmóður innra með mér sem legið hefur í dvala síðan löngu fyrir góðærið. Nú er það ekki bara heimabakað brauð og vellingur heldur líka slátur og annar þjóðlegur matur.
Frænka mín á Seyðisfirði er komin með íslenskar hænur í kofa í bakgarðinum. Kannski maður fari að hennar dæmi. Það er reyndar ekki víst að nágrannarnir yrðu kátir að vakna upp við hanagal og Kolgríma mín gæti aldrei látið fiðurfénað í friði.
En óneitanlega myndi það minna mig á bernskudagana í Kópavogi þar sem eitt og eitt hænsnabú var inn í miðjum bæ og maður var sendur með litla fötu að kaupa egg.
Ég nenni ekki að lesa eða hlusta á þessi viðtöl þar sem menn hvítþvo sig af því hvernig komið er fyrir þjóðinni. Enn síður hef ég áhuga á þessum drengjum sem lýsa því yfir að þeir muni leggja fé og krafta sína í að endurreisa Ísland.
Hvað halda þeir eiginlega að þeir séu? Að þjóðin komist ekki af án þeirra?
Nei takk, má ég biðja um að Ísland verði endurreist án þess að fjárglæframenn komi nálægt því.