31 október 2008

Hvað er að vera fátækur?

Ég er að velta þessu hugtaki fyrir mér.
Blasir fátækt við íslensku þjóðinni? Hvenær er maður fátækur og hvenær ekki?
Langamma dætra minna var hreppsómagi. Hún var boðin upp á manntalsþingum og hún kynntist fátækraþurrki á eigin skinni þegar hún, lítil stúlka, þrufti að fara í kjólinn sinn blautann ein jólin því hann náði ekki að þorna. Hún var alin upp við mikla fátækt og lélegan kost, en hún endaði ævina sem jarðeigandi á Völlum.
Þegar langamma mín var lítil stúlka á Bóndastöðum á Úthéraði dó pabbi hennar. Yfirvöld gripu til þess ráðs sem oft var gert þegar ekkjur stóðu uppi einar með börn sín, systkinahópnum var tvístrað og komið til vandalausra.
Amma mín, dóttir þessarar langömmu minnar, var ekkja með tvö börn í kreppunni um 1930 í Reykjavík. Hún var mjög stolt kona og einsetti sér að þyggja aldrei krónu af því opinbera. Henni tókst að standa við það og henni tókst líka að koma börnum sínum til mennta. Með útsjónarsemi og aga tókst henni þetta, enda voru börnin farin að vinna strax og stætt var á því og þau skiluðu hverri krónu til heimilisins.
Ég er ekki viss um að þessar konur myndu samþykkja það að fátækt blasti við almenningi á Íslandi í dag, án þess að ég sé að gera lítið úr vanda þeirra sem eru að missa vinnuna.
Ég er stolt af því að bera nafn Rannveigar ömmu minnar, nafnið sem hún fékk frá fósturmóður langömmu minnar frá Bóndastöðum. Ég held að ef ég hef fengið eitthvað af seiglunni hennar ömmu með nafninu þá kemst ég klakklaust í gegnum það sem framundan er.

|