08 nóvember 2008

Nú skall hurð heldur betur nærri hælum

Eins gott að Maggi var í Skógarkoti í nótt.
Ég setti þvottavélina af stað í gærkvöldi áður en við fórum að sofa. Eitthvað hefur blessuð vélin misskilið hvaða hlutverki hún gegnir á heimilinu því hún fór flikk flakk heljarstökk út á gólf, sleit vatnsslönguna og lagðist á hliðina ofan á þvottabalann minn og braut hann.
Ekki rumskaði ég við þetta. En sem betur fer gerði Maggi það því vatnsbunan stóð út á gólf og allt fór á flot í þvottahúsinu.
Maggi reyndi að kalla til mín úr þvottahúsinu þegar hann sá verksummerkin, en ég svaf bara á mínu græna eyra og sveif um í draumalandi þar sem allt er ljúft og gott og engin kreppa ríkir.
Það hefði verið þokkalegur fjandi ef vatnið hefði streymt í alla nótt. Ég er hrædd um að ég hefði vaknað upp heimilislaus í morgun því parketið, innréttingarnar og gifsveggirnir eru ekki sérlega vatnsþolin.
Spurning hvort að þvottavélin hafi lifað þetta af eða hvort hún var að fyrirfara sér með þessari undarlegu hegðun.

|