14 október 2010

Kynjagleraugu.

Þá eru Skotturnar farnar á kreik.
Við hér fyrir austan erum að undirbúa Kvennafrídaginn og einn liður í undirbúningi er að segja merkið sem hefur verið hannað, kynjagleraugu.
Ágóðinn af sölu kynjagleraugnanna fer til Stígamóta og annarra slíkra samtaka sem vinna gegn kynferðislegu ofbeldi.
Konur á Héraði og á fjörðum, sem hafa áhuga á að gerast merkjasölukonur, endilega setjið ykkur í samband við mig - ég var að fá helling af merkjum til að selja hér fyrir austan.
Áfram konur!

|

11 október 2010

Haust í Selskógi

Ég fann gömlu bloggsíðuna mína, kannski maður bloggi smá.
Það er búið að vera einstaklega fallegt haustið í Selskógi þetta árið. Það er komið fram í miðjan október og enn sér maður græn lauf á trjám, aspirnar skarta gulum laufblöðum, reyniviðurinn rauðum og glansmispillinn er fjólublár í garðinum mínum.
Skógarþrestirnir hafa hreinsað megnið af reyniberjunum og hafa lokið sínu árlega haustfylleríi með tilheyrandi drykkjusöngvum. Gæsirnar eru flognar suður á bóginn í stórum hópum. Þessar sem ekki höfnuðu í frystikistum landsmanna.
Ég er búin að setja niður yfir hundrað túlípanalauka svo það ætti að vera fagurt yfir að líta við Skógarkot næsta sumar.
Af öðrum haustverkum er það að frétta að vinkona mín gaf mér heimsins besta hrútaberjahlaup, við Maggi fórum og tíndum lerkisveppi og við ætlum að drífa okkur í sláturgerð áður en sláturtíðinni lýkur.
Ég reyni að láta kreppuna ekki svipta mig hamingjunni - það er stundum erfitt eins og núna þegar fjárlagafrumvarpið sem lagt hefur verið fyrir þingið boðar stórfelldan niðurskurð í heilbrigðismálum á Austurlandi.
Ég var á tveimur mótmælafundum í gær. Annars vegar á Seyðisfirði og hins vegar á Egilsstöðum. Þetta voru fjölsóttir fundir og ég vona að þeir hafi haft eins djúp áhrif á þingmennina sem mættu eins og þeir höfðu á mig.

|

08 mars 2010

Ísland í dag

Ég er ótrúlega dofin fyrir ástandinu í landinu.
Samt koma augnablik þar sem ég veit ekki hvort ég á að gráta eða vera öskureið. Eins og þegar ég las þessa frétt.
Almenningur streðar við að halda í lágmarks eignir - hús og innanstokksmuni. Reynir að búa börnum sínum viðunandi heimili við þessar aðstæður sem nú ríkja.
Þeir sem komu þjóðinni út á kaldan klaka fá hins vegar afskrifaðar svo stórar upphæðir að maður skilur þær ekki einu sinni.
Hvað myndi það kosta þjóðarbúið að afskrifa hluta af skuldum venjulegra heimila í samanburði við allar þær óskiljanlegu afskriftir sem menn eins og Finnur Ingólfsson og fleiri eru að fá?
Vill einhver vera svo góður að finna það út?
Ég held að þessi stefna í skuldamálum geti ekki leitt af sér annað en eldfimt ástand því þetta er svo bersýnilega óréttlátt. Ég held að það sé ekki spurning um hvort hér fer allt í bál og brand og blóð renni heldur bara hvenær.

|

02 mars 2010

Er þetta fröken Reykjavík...

... sem gengur þarna eftir Austurstræti?

|

01 mars 2010

Meira af dýralífsmyndum.

Við Kolgríma skorum á Rúv að sýna meira af dýralífsmyndum.
Sérstaklega myndir af músum, fuglum og skordýrum.

|

26 febrúar 2010

Góðir dagar

Vikan hefur liðið allt of hratt eins og allar aðrar vikur í lífi mínu.
Í gærkvöldi fylltist Skógarkot af skemmtilegum konum. Ég stóð fyrir fatakynningu heima og það var nú aldeilis mátað og spáð og spekúlerað.
Maggi var sendur heim til sín þrátt fyrir að hann sé hundlasinn. En það er ekki hægt að hafa karlmann innan um konur að máta föt - það bara gengur ekki.
Við Maggi, Eyjólfur Skúla og Síla erum búin að kaupa okkur far til Tyrklands í sumar og við Síla vorum mikið að spá í hentug strandföt - svolítið absúrd þegar allt er á kafi í snjó á Egilsstöðum.
Litla skemmtiferðafélagið hefur marga mánuði til að hlakka til Tyrklandsævintýra og við Síla getum mátað marga tugi af bikiníum.
4x4 kappar lögðu af stað í Kverkfjöll um kaffileytið í gær. Þeir eru enn á leiðinni inneftir núna 18 klukkutímum seinna. Færðin er ömurleg, einn bíll var rétt lentur niður um ís ofan í vatn en það tókst að spila hann upp. Árnar eru með háum snjóbökkum þannig að þetta verður nú meira brasið hjá þeim. En halda skal þorrablót í Kverkfjöllum hvað sem veðurguðirnir segja.
Ég er að vonast til að Maggi hætti við að fara enda er hann hundlasinn.
Nestið er tilbúið og allt klárt. En kannski við verðum bara í lautartúr alla helgina heima í Skógarkoti - maulum harðfisk, borðum flatbrauð með hangikjöti og höfum það bara huggulegt.
Hvað sem Maggi gerir þá er ég að fara í Sláturhúsið með Grétu Aðalsteins annað kvöld að sjá leikritið Heilsugæslan.
Lífið er bara ljúft þrátt fyrir Icesave og aðra óáran.

|

18 febrúar 2010

Mamma Gógó

Í gærkvöldi fór ég í bíó á Seyðisfirði.
Það var verið að sýna Mamma Gógó og loksins fékk ég tækifæri til að sjá þessa mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar.
Myndin er yndisleg og mjög áhrifarík. Það jók e.t.v. áhrifin fyrir mig að sjá þessa mynd á Seyðisfirði en mamma dvelur þar á sjúkrahúsinu á deild fyrir heilabilaða. Svo er bíósalurinn gamall og hæfði myndinni vel.
Þó allir leikarar hafi skilað sínu hlutverki vel þá stendur Kristbjörg Kjell alveg uppúr að mínu mati. Þessi glæsilega kona sem hefur ekki bara verið falleg heldur alveg gullfalleg ung kona og er ekki síður glæsileg fullorðin kona.
Þar sem sonur hennar kemur til hennar á hælið og segir henni hvað hún hafi alltaf verið honum mikils virði þá er alveg eins og þarna sitji kona sem andlega hefur yfirgefið heim okkar.
Þó ég hafi á stundum orðið svolítið klökk þá er þetta ekki sorgleg mynd - það er mikill húmor í henni og Friðrik Þór fer mjög vel með þetta vandmeðfarna efni - að horfa á foreldra sína detta út úr samfélaginu og verða upp á aðra komin. Fólk sem hefur sitt stolt og á að fá að halda því.
Það eru nokkur ár síðan kvikmyndahúsarekstur lagðist af á Egilsstöðum en það er ágætur bíltúr að skreppa, í góðra vina hópi, frá Egilsstöðum í bíó á Seyðisfjörð - ég held ég geri meira af því í framtíðinni.

|