31 ágúst 2006

Hann tölvi minn

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að tölvan mín sé karlkyns.
Það er erfitt að koma honum í gang á morgnanna - tók 20 mínútur í dag.
Hann getur bara með góðu móti gert einn hlut í einu - ef ég er á netinu dettur msn-ið oft út.
Hann lætur illa að stjórn - ég get alveg orðið hoppandi stundum ef ég vil fara á milli forrita.
Ég get ekki hugsað mér að missa hann af heimilinu - þrátt fyrir alla gallana.
Ég er samt tilbúin að skipta honum út fyrir annan meðfærilegri.
Þetta er greinilega karlkyns fyrirbæri.

|

30 ágúst 2006

Hvar er forseti vor???

Eru nú Ólafur og Dorit á djamminu út í heimi?
Alla vega, þegar kötturinn er ekki heima leika mýsnar sér og það er það sem hefur gerst núna.
Ég sá það á netinu í morgun að Björn hefur notað tækifærið þegar forsetinn brá sér frá og fengið flokkssystkini sín, handhafa forsetavaldsins til að veita Árna Johnsen uppreisn æru. Er ekki í lagi með menn???
Það flugu svo margar spurningar um hausinn á mér þegar ég las þetta að mér tókst ekki einu sinni að fanga þær allar.
Byrjaði á því að teygja mig eftir orðabók og sjá það svart á hvítu hvað það þýðir að fá uppreisn æru. Skv. Orðabók Menningarsjóðs þýðir það að "fá viðurkenndan heiðarleika sinn og (óflekkað) mannorð".
Bíddu nú við, er bara ýtt á undo og nú er Árni með hvítskúraða sál? Er hann núna með hreint sakavottorð? Verður honum næst veitt starf ríkisféhirðis? Var ekki nóg að hann greiddi samfélaginu skuld sína með þægilegri dvöl á Kvíabryggju?
Maður bara spyr, hvað með þá sem flæktust í Geirfinnsmálin - Sævar fær ekki einu sinni málið tekið upp hjá Hæstarétti. Það hefur aldrei neitt sannast á þá sem flæktust í það mál og samt mega þau fara í gegnum lífið með þetta allt á bakinu.
Ég verð að viðurkenna að ég gef ekki mikið fyrir þetta aflátsbréf hans Björns og í mínum augum er Árni Johnsen bara Árni Johnsen og hann spilar ekkert betur á gítar, hann hefur ekkert fallegri söngrödd, hann heldur ekkert betur lagi og hann hefur ekkert heiðarlegri sál í mínum augum hvað sem Björn og félagar teikna fallegar myndir þegar Ólafur sér ekki til.

|

28 ágúst 2006

Heima er best

Þá er ég loksins komin heim í heiðardalinn.
Það fór auðvitað vel um mig hjá dætrunum, gaman að hitta alla vini og vandamenn sem ég náði að hitta fyrir sunnan og allt það, en það var afskaplega ljúft að koma heim.
Himnafaðirinn og Finnur sendu mér Ruminn á Reykjavíkurflugvöll og hann hjálpaði mér með handfarangurinn, var sko að fara austur með sömu vél og ég. Tengdasonurinn Járni var búinn að tékka inn farangurinn minn - ég reyndist vera með 20 kg yfirvigt - sniðugt af því að ég mátti ekkert bera.
Svo tók Nína á móti mér á Egilsstaðavelli þannig að ég þurfti ekkert að gera nema halda á veskinu mínu.
Kolgríma kunni sér ekki læti - mér hefur aldrei verið fagnað svona vel og lengi af nokkurri lifandi veru. Hún mjálmaði, velti sér um á gólfinu, elti mig hvert fótmál og ef ég hefði skilið kattamál þá er ég viss um að ég hefði fengið að heyra ýmislegt spaklegt.
Í nótt kúrði hún auðvitað hjá mér og ég vaknaði í það minnsta tvisvar við það að hún stóð upp og mjálmaði og þegar ég var búin að svara henni lagðist hún aftur fyrir.
Hún Kolgríma er heimsins besta kisa.

|

24 ágúst 2006

Klippt og skorin

Þetta gekk nú aldeilis vel.
Nú er ég orðin voðalega flott, strekkt og straujuð. Michael Jackson hvað???
Ég lifi eins og prinsessan á bauninni og vinir og vandamenn hér í höfuðborginni stjana við mig. Líka vinir og vandamenn fyrir austan því Nína passar Kolgrímu og Hjördís hamast við að reyna að selja húsið mitt. Hún verður samt vonandi ekki búin að selja ofan af mér þegar ég kem heim.
Ég þarf að fá mér smá fegrunarblund og svo kemur Inga að sækja mig í kvöldboð upp að Elliðavatni.

|

21 ágúst 2006

Undir hnífinn

Jæja, þá er Guðmundur Már farinn að stála hnífinn.
Ég hefði ekki trúað því á sjálfa mig hvað ég er pollróleg þó svo að eftir rúman klukkutíma verði farið að krukka í mig.
Það var ekki einu sinni erfitt að fasta, að því undanskildu að ég er að deyja úr löngun eftir góðum kaffibolla - það verður sko það fyrsta sem ég fæ mér eftir að ég kem til meðvitundar aftur.
Hafið þið það öll gott gæskurnar mínar, ég ætla að panta taxa suður í Hafnarfjörð.

|

18 ágúst 2006

Á rúntinum

Ótrúlega var gaman í gærkvöldi.
Við vorum 4 Kópavogs-skvísur á Kaffi París og áður en við færum heim ætluðum við að kíkja á ljósmyndsýninguna á Austurvelli.
Við vorum rétt byrjaðar að skoða myndirnar þegar byrjuðu að streyma þessir líka rosa kaggar og æðislegu mótorhjól fram hjá Hótel Borg.
Við urðum allar seytján á nóinu og fengum fiðring í magann þegar við heyrðum drunurnar í gömlum Mustang og félögum hans.
Ákváðum að labba yfir á Hallærisplan og sjá herlegheitin þar. Ógeðslega flott tæki maður minn. Og gæjarnir, þeir veifuðu þessum fjórum 17 ára stelpum enda voru þetta sömu gæjarnir og voru á rúntinum í denn og allir brotstu sínu blíðasta.
Það voru fleiri tugir af gljáfægðum mótorhjólum og maður sá þarna ömmur og afa sem loksins höfðu látið drauminn rætast og fengið sér eitthvað öflugra en Súkku eða Hondu 50.
Þetta var svo mögnuð upplifun að það munaði minnstu að ég labbaði framhjá Benza mínum í Pósthússtrætinu og færi út að Menntó til að taka SVK heim.

|

16 ágúst 2006

Óttalegur barlómur

Ég er hætt að grenja og allt er orðið gott.
Er að keppast við að ljúka nokkrum verkefnum í vinnunni, sólin skín og ég flýg suður í kvöld. Skelli mér á menningarnótt um helgina, hitti dæturnar, vinkonurnar, ættingjana og alla hina. Voða, voða gaman.
Skelli mér í fegrunaraðgerð á mánudag og þá megið þið öll hugsa fallega til mín.
Síðan kem ég heim aftur eftir u.þ.b. 10 daga og þá verða ég eins og Mickael Jackson, óþekkjanleg.
Ég hef ekki fengið kvíðahnút í tvo daga og vöðvabólgan er öll að minnka.
Nína passar Kolgrímu og Kolgríma passar húsið.
Hafið þið það bara huggulegt og ef ég kemst í tölvu og hef heilsu til þá læt ég vita af mér.

|

13 ágúst 2006

Allt ómögulegt

Ég er dottin ofan í algert svartsýniskast.
Það er allt ómögulegt, ekki síst þessir skelfilegu nágrannar mínir Biggi og Birna. Þau eru svo rosalega dugleg að gera fínt í kringum sig og þó ég vilji bara vera inni þótt sólin skíni þá neyddist ég til að fara út í morgun og snyrta obbolítið í kringum húsið mitt. Ekki get ég haft minn garð alveg eins og ruslahaug þegar allt er orðið fínt í næsta húsi. Ég meira að segja tók niður jólaseríuna úr þakskegginu, ekki að það lægi neitt á því, það er nú bara ágúst.
Ég er með grjót í öxlunum og kvíðahnút í maganum.
Hresstist samt smá við að hjóla til Nínu vinkonu og drekka kaffi með henni og slúðra smá. Nína var að koma frá Spáni sólbrún og sæt. Hún færði mér rosalega flotta senjórítusvuntu svo ég taki mig betur út í eldhúsinu og fleira fínerí.
Best að hætta þessu voli og reyna að gera eitthvað af viti.

|

10 ágúst 2006

Framkvæmdir hafnar

Jæja, þá er búið að grafa fyrir grunni Skógarkots.
Mér varð litið út um gluggann upp í vinnu, í áttina að Skógarkoti (eins og ég hef átt til að gera oft á dag undanfarna mánuði). Nema hvað, ég sá ekki betur en það væri grafa að vinna nákvæmlega á þeim stað sem Skógarkot á að rísa.
Ég trúði ekki mínum eigin augum, ég hélt að fasteignasalinn myndi láta mig vita og að fyrsta skóflustungan yrði tekin við hátíðlega athöfn, léttar veitingar, klippt á borða, fjölmiðlar (alla vega fasteignablöðin) og svona smá ræðuhöld, blöðrur og fánar.
En nei, ó, nei. Bara byrjað á framkvæmdum í laumi.
Ég renndi uppeftir til að sjá þetta með eigin augum og það var ekki um að villast, allt á fullu og við Súbbi þvældumst bara fyrir.
Ég get huggað mig við að Skógarkot er fyrsta húsið sem byrjað er á neðan við götuna og í kvöld þá renndi ég uppeftir til að skoða holuna sem Skógarkoti verður sáð í. Undir stofunni og gestaherberginu er klöpp en mýkra undirlag verður undir eldhúsinu og svefnherberginu. Gömlu tréin voru skilin eftir eins og ég bað um en það á eftir að koma í ljós hvort ég láti þau standa - verð fyrst að sjá hvers konar útsýni verður af pallinum sem væntanlega mun verða reistur vestan við húsið.

|

09 ágúst 2006

Allt spik and span

Það er orðið svo voðalega fínt hjá mér.
Spurning hvort ég tími bara nokkuð að vera að selja húsið.
Innanhúshönnuðurinn er farinn en skildi eftir smá verkefni handa mér. Ég þarf aðeins að fríska upp á nokkra hluti og á svo að gefa rapport reglulega.
Guði sé lof að til er fólk sem er hugmyndaríkt og hreinskilið. Tala nú ekki um þegar þetta fólk er líka drífandi og úrræðagott. Svo þakka ég fyrir að úr því að ég tilheyri ekki þessum hópi þá hefur skaparinn verið svo góður að planta svona fólki í vina- og vandamannahópinn minn.
Sissa og Gissur eru búin að koma og fara með helminginn af innbúinu mínu í Sorpu, þann hluta sem Kristrún taldi ónothæfan. Þetta kemur sér vel því nú er minna sem ég þarf að flytja með mér ef ég skildi tíma að selja húsið.
Það passaði til að þegar Kolgríma og Perla voru búnar að sætta sig við tilvist hvor annarrar þá héldu Perla og fjölskylda heim á leið.

|

04 ágúst 2006

Umvafin karlmönnum

Fínn dagur í gær.
Rafvirkinn kom og sagði mér að leggjast í rúmið. Sjálfur fór hann hins vegar undir rúmið - undarleg hegðun. Hann gat ekki lokið sér af og sagðist mundi koma síðar.
Í gærkvöldi brá ég mér af bæ og þegar ég kom aftur heim var karlmaður í garðinum að ljúka við að snyrta hekkið fyrir mig.
Yndislegar verur þessir karlmenn.
Í dag skín sólin sæt og fín og við Kristrún ætlum í sveppamó. Kristrún er með alls konar hugmyndir sem á að framkvæma um helgina - húsið mitt á að verða voða fínt og sá sem kemur næst að skoða hlýtur að falla fyrir því og kaupa það.
Kolgríma er smám saman að læra að Perla er ekkert hættuleg og er ekki að reyna að ná yfirráðum í húsinu. Hún hvæsir bara lítið á hana og skottið er hætt að vera þrefallt - hún er samt vör um sig ennþá.

|

03 ágúst 2006

Góðir gestir

Þá eru stuðboltarnir úr Kópavoginum farnir heim.
Líka allir krakkarnir.
En maður kemur í manns stað og ég er búin að fá nýja gesti. Það er mjög huggulegt að fá góða vini til að blanda geði við, en aumingja Kolgríma er ekki alveg að fíla þessa gestakomu. Það fylgir nefnileg hundur með. Elsku dúllan hún Perla er sem sagt komin í heimsókn en Kolgríma mín hefur ekki séð hund síðan Bjartur fóstraði hana fyrstu vikur ævi hennar svo hún gengur um húsið með kryppu og þrefalt skottið. Hún er samt aðeins byrjuð að slaka á og í gær laumaðist hún til að nusa smá af bakinu á Perlu þar sem hún var að fá sér fegrunarblund.
Það var smá matarboð hjá mér í gærkvöldi sem endaði inn í stofusófa þar sem allir komu sér vel fyrir popp og kók og við horfðum á The pirates of the Caribbean með Johnny Depp. Voða gaman.
Ég er búin að panta mér rafvirkja í rúmið mitt, því þar er eitthvað eins og það á ekki að vera.

|

01 ágúst 2006

Að týna sjálfum sér

Nú hef ég misst andlitið.
Ég er búin að snúa heimilinu við í leit minni að snyrtibuddunni með öllum andlitsfarðanum. Ég komst í leiðinni að því að trúlega hef ég ekki sett upp andlit í heila viku.
Þið sem hafið rekist á það látið mig vita. Það er geymt í hvítri lítilli snyrtitösku frá Lancome.

|