29 febrúar 2008

29. febrúar

Jæja er ekki verið að svindla auka vinnudegi inn á launþega landsins.
Ég vinn reyndar bara fram að hádegi í dag því það er runninn upp ferðadagur.
Veðrið er yndislegt, þó ekki sjái til sólar. Veðurspáin er ekkert sérstök en hvað um það, þetta verður örugglega fínn túr og skemmtilegur.
Í fyrrinótt fór mamma fram úr rúminu sínu og lærbrotnaði. Það var flogið með hana til Akureyrar og Anna systir fór með henni.
Það var langt liðið á dag þar til ég frétti af því hversu alvarlegt þetta væri og þegar ég loksins fékk fréttir af því að þetta væri ekki opið brot og að þetta liti ekki svo illa út, þá var eins og öll orka liði úr kroppnum á mér og niður á gólf. Ég var svo úrvinda í gærkvöldi að ég bara laka inn í draumalandið eftir að hafa farið í bað og klárað að taka mig til fyrir Kverkfjallaferðina.
Lærbrot er alvarlegt mál fyrir svona fullorðna konu, mamma verður 87 ára 15. mars nk. en við bara að vonum það besta og ég bið að Guð láti henni batna fljótt og vel. Mér finnst alveg nóg á þessa elsku lagt þó ekki bætist fótbrot við. En ég er þakklát fyrir notalega stund sem ég átti með mömmu í fyrradag.
Við fórum allar í bað í gærkvöldi, ég og kisurnar. Ég notaði tímann meðan það rann í baðið og spjallaði við Guðlaugu mágkonu í símann. Svo heyrði ég bara splass og sull og stökk inn á bað. Þar komu tvær holdvotar kisur upp úr baðkarinu. Ekki laust við að það væri fyndin sjón. En við erum allar hreinar og fínar í dag, svo mikið er víst.
En nú er Lata Gréta að fara á fjöll og ég óska öllum góðrar helgar.

|

28 febrúar 2008

Litli ferðaklúbburinn

Í gær var fundur í Litla ferðaklúbbnum.
Nína og Maggi komu í Skógarkot, ég bakaði skjóttar vöfflur, þeytti rjóma og kveikti upp í kamínunni. Voða huggulegt.
Svo var farið yfir ferðatilhögun helgarinnar í Kverkfjöll. Búnað og nesti, ég vildi auðvitað bara tala um nestið.
Nína er ekki kisukona þó henni semji vel við primadonnuna Kolgrímu, en kjáninn hún Klófríður var að hrekkja Nínu með því að læsa í hana klónum og láta öllum illum gestalátum. Kolgríma kann sig þegar það koma gestir.
En nú er bara að leggjast á bæn og biðja veðurguðina um skaplegt veður til fjalla um helgina. Spáin er ekki góð en ég held að hún sé samt að skána. Svo er það nú bara þannig að þeir þarna í efra hlusta ekki á veðurspá. Ég held að við eigum eftir að fá skaplegt veður, nú ef ekki, þá bara verð ég með bók að lesa.
Það verða nokkrir tugir manna á ferð á mörgum jeppum og ég er búin að frétta af nokkrum björgunarsveitarmönnum sem verða með í för, þannig að það eru þá hæg heimatökin ef við þurfum á björgunarsveitinni að halda.

|

26 febrúar 2008

Áttavillt

Ég er snaráttavillt hér á Egilsstöðum.
Samt hef ég verið viðflækt staðinn mest alla æfina.
Ég var að skoða Google earth og þá kemst ég að því að ef ég horfi út um stofugluggann hjá mér og út eftir Fljótinu, þá er ég að horfa nánast í há-norður. Ég hélt ég væri að horfa í aust-norð-austur. Hef alltaf haldið að áttirnar væru svoleiðis hér.
Ég er að verða fimmtug og veit ekki í hvaða átt ég fer þegar ég geng út úr húsi mínu á morgnanna.
Ég held ég verði að reyna að ná áttum í lífinu.

|

25 febrúar 2008

Nei sko

er ekki bara minn gamli fjandvinur og frændi Nonni í Sigtúni orðinn sveitarstjóri á Borgarfirði.
Ég óska Nonna og Borgfirðinum til hamingju.

|

24 febrúar 2008

Konudagur

Ég er orðin nokkuð góð í vöfflubakstri. Að vísu eru vöfflurnar skjóttar, enda bakar vöfflujárnið með mjög mislægum hita. Ef þetta skánar ekki verð ég að fara og tala við hana Ragnhildi í Húsasmiðjunni.
Undanfarna daga hef ég leitað logandi ljósi að öðrum Cintamani-göngubuxunum mínum til að geta verið klár í Kverkfjallatúrinn um næstu helgi, ef kappinn hann Maggi kemur jeppanum í lag.
Ég hef spurt alla sem mér dettur í hug að hafi vitneskju um hvar mér er trúandi til að skilja eftir fötin mín, hvort þeir hafi séð buxurnar mínar.
Nú er það svo að kona á mínum aldri tapar ekki buxunum sínum nema annað hvort að hún sé gliðra eða sé farin að fá aðkenning að minnisleysi. Sem betur fer komst ég að því að það er seinna atriðið sem á við mig. Ég var sem sagt búin að ganga frá í skúffu nokkrum fjallaflíkum, ullarbrókinni, flísbuxunum, þunnri ullarpeysu og betri göngubuxunum, til að hafa þetta allt á einum stað ef á þyrfti að halda. Svo þegar svona miðaldra kona hefur þetta líka skápapláss sem ég hef þá bara týnist það sem ekki er í stöðugri notkun.
Í tilefni konudagsins fór ég í Blómaval og keypti blóm handa mömmu. Svo sat ég hjá henni og sagði henni sögur af því hvað kisurnar mínar væru góðar og skemmtilegar. Þegar ég kom heim komst ég að því að þær eru ekki eins góðar og skemmtilegar og ég hafði verið að segja mömmu. Alla vega ekki Klófríður. Hún hafði notað tímann sem ég var að heiman til að gera róttæka tilraun til að leggja heimilið í rúst. Búin að henda niður blómapottum og svína allt út.
Nú hefst uppeldi hennar fyrir alvöru og spreybrúsinn sem Kolgríma fékk að kenna á meðan hún var að læra að ganga um heimilið er nú óspart notaður á Klófríði. Verst að ég fæ samviskubit þegar ég er að spreyja á hana, en þetta er eina leiðin til að kenna henni hvar hún á alls ekki að vera.

|

23 febrúar 2008

Kamína

Í gærkvöldi var kamínan í Skógarkoti vígð.
Ég var reyndar búin að afskrifa það að vígja hana um helgina því ég átti ekki eldivið og mér finnst ferlega blóðugt að borga á annað þúsund krónur fyrir einn smá pokaskjatta af eldiviði úr Hallormsstaðaskógi.
Ég var nú bara svona að stússa á heimilinu eftir vinnu í gær þegar ég heyrði sagarhljóð úti og þegar ég fór að athuga málið var kappinn hann Maggi mættur með vélsög og var að snurfussa tré sem hafa laskast í veðrunum í vetur.
Það kom út úr þessu ágætis eldiviður og eftir kvöldmatinn var kveikt upp.
Þetta lukkaðist aldeilis vel og það skíðlogaði. Fyrst fuðraði jólatréð mitt og svo fór að snarka í birkinu. Ég átti ekki von á að viður beint úr rjóðrinu myndi loga svona vel.
Klófríður þurfti að kanna þetta furðufyrirbæri og hún hefði örugglega stokkið á eldinn ef ekki hefðu verið glerhurðir fyrir, hún stóð á afturlöppunum, studdi framlöppunum á kamínuna og mændi inn í eldinn.
Nína vinkona kaus að fara ferkar í eitthvað fínt matarboð með sveitastjóranum á Djúpavogi, en að koma í Skógarkot, svo hún missti af herlegheitunum. Ég verð bara að bjóða henni sérstaklega í kakó og kamínueld eitthvert kvöldið.

|

20 febrúar 2008

Húrra fyrir mér

Eins og ég og vöfflujárnið höfum ekki bara náð sáttum.
Ég er að gæða mér á þessum líka fínu vöfflum sem ég bakaði eftir uppskriftinni sem eldhúsguðinn sendi mér.
Vöfflujárnið er því ekki lengur falt Gunnhildur mín, en ég veit þá hvaða gjöf ég get gefið ykkur Mirek ef þannig ber við.
Nú þarf ég bara að læra að búa til hrísgrjónagraut og þá er ég gjaldgeng í klúbb hinna myndarlegu húsmæðra. Ég kunni að búa til hrísgrjónagraut á öldinni sem leið, ég þarf bara að rifja það upp.
Það endar sjálfsagt með því að ég tek slátur næsta haust, það hef ég nú ekki gert í alla vega 10 ár.

|

19 febrúar 2008

Lítið notað vöfflujárn ...

... til sölu.
Uppskrift fylgir ekki.

|

Vöfflubakstur

Í gær ætlaði ég virkilega að slá í gegn.
Ég er nýbúin að eignast vöfflujárn, hluti af innflutningsgjöf sem ég fékk frá þeim sem vinna á Lyngásnum.
Nú, ég hugðist baka dýrindis vöfflur og fær þeim feðgum Magga og Fannari þar sem þeir voru eitthvað voðalega mikið að bardúsa á Stekkjartröðinni í gærkvöldi.
Ekki tókst nú vel til. Ég gerði bara eins og á liðinni öld þegar ég var síðast að baka vöfflur, hrærði saman hinu og þessu, smá hveiti, svolítill sykur, natrón, egg, smjörlíki og eitthvað fleira sem ég fann í eldhúsinu og fannst að gæti átt heima í vöffludeigi, eða soppu eins og tengdamamma hefði sagt.
En ekki urðu nú vöfflur úr þessu. Þetta jukk festist bara í nýja vöfflujárninu og var þar að auki svo lítið spennandi að jafnvel Klófríður sem er til í að smakka flest, fitjaði bara upp á trínið.
Það sem áttu að vera vöfflur er allt komið út í ruslatunnu en ég ákallaði eldhúsguðinn minn og Gréta sendi mér uppskrift af vöfflum hinnar myndarlegu húsmóður. Gréta fullyrðir að í vöfflur sé nauðsynlegt að hafa lyftiduft, natrón sé fyrir pönnukökubaksur. Jæja, þá veit ég það.
Ég er að spá í að reyna aftur fyrir mér í vöfflubakstri í kvöld og sjá hvort betur tekst til. Ef ekki, þá bara er vöfflujárn á lausu í Skógarkoti.

|

17 febrúar 2008

Tímamót í lífi Klófríðar

Í dag fór Klófríður litla út í fyrsta sinn svo orð væri á gerandi.
Hún kunni mjög vel við sig úti á palli, enda er bara notalegt úti. Ég sá á skiltinu fyrir Fagradal að þar er 10°C hiti.
Hún fékk nú ekki að vera lengi úti og hún grenjaði hástöfum þegar ég tók hana inn aftur. Hún er alveg rosaleg væluskjóða ef þannig ber undir.
Ég prufaði að setja á hana hálsól, hún verður að vera orðin ólavön ef hún fer að vera úti. Það var ekki laust við að það væri fyndin sjón. Hún skildi ekkert í þessum bjölluhjómi sem heyrðist við hverja hreyfingu og hún sat á afturlöppunum og reyndi að nota framlappirnar til að ná í þennan hlut sem hún sá ekki. Ég hafði ólina ekki lengi á henni, hún verður að smá venjast henni.
Við Nína fórum í náttfatamorgunmat til Dandýjar en Dandý býr hér í næstu götu við mig. Nína svindlaði og kom uppdressuð eins og hún væri að fara í messu. Sagðist hafa verið að koma af bæjarmálafundi. Hún hefði nú getað farið á náttfötunum á fundinn og sagst vera að fara í náttfatamorgunmat á eftir. Það hefði ég gert.
Ég ætlaði að vinna í dag, en það er svo vorlegt úti, ég ætla frekar að skella mér á Seyðisfjörð að heimsækja mömmu.
Svo segi ég bara Mírek, til hamingju með afmælið í dag.

|

16 febrúar 2008

Bergþóra Árnadóttir

Aldrei hef ég haft dálæti á Bergþóru Árnadóttur.
En núna í tengslum við minningartónleikana í Salnum þá hef ég verið að hlusta svolítið á tónlistina hennar.
Hún hefur verið skemmtilegur gítarleikari, góð söngkona sem samdi falleg lög og hvert orð í texta þessa lags skilar sér.
Kannski var það eitthvað í fasi hennar sem höfðaði ekki til mín, en hvað um það, ég hlakka til að heyra diskinn sem á að koma út núna í tilefni af sextugsafmæli hennar.
Af mér og mínum er allt gott að frétta. Talsímavörðurinn Anna Berglind er ásamt Jóni Árna sínum í Lundúnum að skemmta sér á árshátíð Já 118. Gunnhildur er búin að fá fasta stöðu sem blaðamaður á Mogganum, Mirek er að vinna í Alþjóðahúsi við að aðstoða Pólverja sem fluttir eru til landsins. Hann á afmæli á morgun, til lukku með daginn Mirek.
Kjáninn hún Klófríður kemur mér til að brosa, Kolgríma mín heldur reisn sinni og horfir með þóttasvip á Klófríði vitleysast, milli þess sem hún fæst til að leika við hana.
Sem sagt, allt í lukkunnar velstandi hér í Skógarkoti.

|

15 febrúar 2008

Að versla í heimabyggð

Í minni heimabyggð er afbragðsgóð þjónusta í flestum fyrirtækjum.
Það heyrir til undantekninga að maður fái ekki góða þjónustu. Í sérverslunum er manni tekið með bros á vör og þó maður kaupi ekkert þá lætur afgreiðslufólkið ekki eins og það hafi sóað tíma sínum í að veita aðstoð. Bíður mann bara velkomið aftur.
Ég er eins og flestar konur þannig að ég vil vera þokkaleg til fara, en ég er líka eins og margar konur á mínum aldri oft í hálfgerðum vandræðum þegar að fatakaupum kemur. Það er eins og fötin séu flest sniðin á títiprjóna með flata bringu.
Þegar ég rangla um í fatabúðum í Reykjavík, finn ég sjaldnast eitthvað sem bæði er fyrir minn smekk og passar á mig.
En hér heima á Egilsstöðum á ég aldrei í vandræðum með að kaupa mér föt. Ástæðan er ekki sú að hér fáist sérsaumuð föt á þéttholda konur með brjóst, heldur er ástæðan sú að það vill svo heppilega til að hér er landsins besta fatabúð.
Þar fást öll helstu fatamerkin mín og þær systur Þura og Magga sem reka verslunina Sentrum eru afar snjallar að finna á mann falleg föt í réttum stærðum. Ég þarf bara að segja að hverju ég er að leita og þá koma þær með eitthvað fínt og fallegt. Reyndar eru þær svo snjallar að þegar ég kem inn og er bara að leita að buxum, þá fer ég gjarnan með topp, bol, peysu eða eitthvað annað með mér heim líka.
Nú svo af því að ég er stutt til hnésins þá gerir ekkert þó buxur séu of síðar því við höfum líka frábæra saumakonu, hana Láru, sem styttir og lagar hverja flík.
Á Höfn er líka svona fín fatabúð, Lónið og þar er líka svona fín þjónusta.
Flest öll mín föt eru úr þessum tveimur verslunum.
Þegar ég var í búðinni í dag hitti ég konu og við fórum að spjalla. Hún hafði orð á að ég væri fín og mér fannst gaman að geta sagt henni að öll fötin mín að skónum meðtöldum væru úr okkar fínu fatabúð, Sentrum.
Að versla í sinni heimabyggð, það er málið.

|

14 febrúar 2008

Bílskrjóðurinn Súbbi

Ég fór á Höfn í gær.
Lagði af stað á mínum eðalfína Súbarú, sæl og glöð. Byrjaði á að smala saman ferðafélögunum, sækja Ragnheiði og svo Helga Jensson.
Helgi fékk hræðslukast á stéttinni heima hjá sér við tilhugsunina um að ég myndi vera ökumaður svo ég eftirlét honum ökumannssætið.
Allt í góðu með það. Nema að fljótlega fór hann að finna eitt og annað að honum Súbba mínum. Á Fagradal kvartaði hann yfir að það væri ekki krús kontrol á bílnum. Ég nota nú bara hraðamælinn. Svo var svona eitt og annað sem honum fannst ekki nógu gott við hann Súbba minn. Bað mig að finna skráningaskírteinið og segja sér hvað þessi kraftlausa vél væri stór. Hummm, 2.000 vél dugar mér fínt.
En það hefði ekki veitt af krús kontrol því við fórum á Axartíma á Höfn þó við þræddum firðina. Svo í bakaleiðinni var krapaslabb á veginum og þoka og þá kvartaði Helgi yfir að það væru ekki þokuljós.
Þetta er nú bara fólksbíll en ekki amerískur tröllapallbíll eins og Helgi ekur á.
Ég hafði það á tilfinningunni að Súbbi minn væri skrjóður og að ég yrði að huga að bílakaupum.
Nú, aðal fréttirnar hér eru að kappinn hann Maggi er búinn að bjóða mér á þorrablót 4x4 í Kverkfjöllum. Ég hef ekki mátt heyra minnst á fjallaferðir í mörg ár, en ég hlakka til að fara þessa ferð með kaffi í brúsa og nesti í boxi.
Nóg að gera í sósíallífinu því helgina eftir þorrablótið er stelpuferð til Reykjavíkur á dagskrá hjá okkur Nínu vinkonu. Leikhús, bíó, búðaráp og fleira skemmtilegt.
En núna um helgina ætla ég að vera í rólegheitum heima og reyna aðeins að taka til á heimilinu áður en Skógarkotið mitt breytist í sóðabæli.

|

12 febrúar 2008

Eric Clapton

Þann 4. mars nk. sest ég við netið og kaupi miða á tónleikana með Eric Clapton.
Svo mæti ég í Egilshöll þann 8. ágúst, þó ég finni engan sem vill koma með mér. Ég verð þá bara ein í höllinni að hlusta á kappann og hann getur spilað Wonderful to night bara fyrir mig.
Ég elska þetta lag. Og þetta líka.

|

11 febrúar 2008

Íslensk tunga

Ég held að ég sé að tapa tengslum við móðurmálið.
Áðan heyrði ég í fréttum að í kjarasamningum er verið að bjóða eitthvað í baksýnisspegli. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað er verið að bjóða eða hvað í þessu tilboði, sem ég skil ekki, felst.
Í minni málvitund er baksýnisspegill tæki sem er á ökutækjum og maður notar til að geta fylgst með því sem fyrir aftan er án þess að snúa hausnum. Ég hef bara ekki ímyndunarafl til að sjá hvað svoleiðis tæki hefur með kjarasamninga að gera.
Svo er þessi málvenja sem hefur rutt sér til rúms í Sjálfstæðisflokknum - að gera mistök. Í mínum huga er það að gera mistök eitthvað sem maður gerir og iðrast svo að hafa gert. Að mistakast eitthvað, að verða eitthvað á. Skv. mínum málskilningi felur hugtakið - að gera mistök ófravíkjanlega í sér eftirsjá, iðrun eða í það minnsta einhverja þá tilfinningu að menn vildu síður hafa gert það sem þeir hafa gert.
Skv. fréttum undanfarið af störfum Vilhjálms fyrrverandi og komandi borgarstjóra og skv. því sem Árni Johnsen lýsti yfir eftir dvölina á Kvíabryggju, virðist mér að orðasambandið - að gera mistök, sé að gera eitthvað af sér og það kemst upp. Mistökin virðast ekki liggja í verknaðinum sem framinn var heldur í þeirri staðreynd að verknaðurinn uppgötvaðist.
Ég held ég verði að fara að endurskoða málvitund og málskilning minn.

|

10 febrúar 2008

Að loknu blóti

Ótrúlega lukkaðist blótið vel.
Ég kom sjálfri mér á óvart með því að lesa annálinn án þess að blása úr nös.
Dagskráin rann ljúflega og menn jafnvel hlógu að skemmtiatriðunum. Svo var dansað til kl. 4.
Mér leist nú ekki nógu vel á sjálfa mig þegar ballið var að byrja, þá var ég ekki í neinu dansstuði og þegar Skúli Björns var búinn að sveifla mér nokkra hringi um dansgólfið var ég eitthvað skrýtin í hausnum.
En sem betur fer lagaðist þetta og ég dansaði og dansaði. Frá kl. 3 til 4 féll ekki einn dans úr hjá mér.
En svo eru það nú aðalfréttir helgarinnar. Ég gleymdi tölvunni inn á Iðavöllum og hef verið netsambandslaus í 2 sólarhringa. Já, heila tvo sólarhringa!!! Ég veit að dætur mínar trúa ekki öðru en að ég hafi haft alvarleg fráhvarfseinkenni, en satt að segja hef ég haft það ljómandi gott. Las Moggann spjaldanna á milli í gær og hafði það bara virkilega ljúft.
Í dag notaði ég þetta fallega vetrarveður til að skreppa á Seyðisfjörð þegar ég var búin að fara í Iðavelli til að taka þátt í tiltekt og sækja tölvuna mína.

|

08 febrúar 2008

8. febrúar

Jæja, þá er runninn upp þorrablótsdagur á Völlum.
Ég er búin að hafa til öll föt og allt skart sem ég þarf að nota í kvöld og búin að finna til tösku undir allt dótið.
Það er samt best að pakka því ekki strax því Klófríði finnst þetta tilstand svo skemmtilegt og þessi litla kisa er búin að vera að drösla töskunni hér fram og til baka um gólfin.
Þetta er alveg ótrúlega líflegur og skemmtilegur köttur. Hún heldur henni Kolgrímu minni í þjálfun því nú fær Kolgríma ekki næði til að dorma alla daga, hún er dregin í leiki, slagsmál og hlaup um húsið. Þegar Kolgríma er búin að fá alveg nóg finnst henni gott að leita næðis í bílskúrnum og lúra þar á ullargardínum sem voru í stofunni á Reynivöllunum.
Klófríður hefur líka fundið upp á því að draga eitt og annað í bólið sitt, þannig að nú er ég búin að læra það að ef eitthvað hverfur, eins og einn sokkur, þá eru miklar líkur á að hann sé í bóli Klófríðar.
En í kvöld kemur í ljós hvort fleiri en við nefndarmenn höfum gaman af dagskránni sem við settum saman.
Stóra spurningin er hins vegar hvort að Jón Guðmundsson fyrrum barnakennari og fyrrum vinur Eymundar í Vallanesi kemst austur til að stjórna fjöldasöng. Eitthvað voru menn í gær að hafa áhyggjur af veðurspá og flugsamgöngum.
En þetta kemur allt í ljós og eins og góður Íslendingur hugsar þá segir ég nú bara, æi þetta reddast.

|

06 febrúar 2008

Í morgunsárið

Þetta hefur verið frekar undarlegur morgun.
Ég snéri höfðinu eitthvað snöggt til þegar ég var að fara á lappir og það var rétt liðið yfir mig. En framúr komst ég og þá blasti við mér ótrúleg sjón. Kolgríma og Klófríður kúrðu saman á stól framan við herbergið mitt. Ja, hérna, ekki átti ég nú von á að þetta ætti eftir að ganga svona vel.
Nú, ég gat ekki búið mér til kaffi því ég gleymdi að kaupa kaffipoka í gær. Kom svo sem ekki að sök, fékk mér bara stóran sopa af lýsi áður en ég lagði af stað í vinnuna.
En þá var næsta uppákoma. Þegar ég ætlaði að bakka honum Súbba mínum út úr bílskúrnum þá var bara búið að leggja í stæðið framan við bílskúrsdyrnar. Eins gott að ég leit í baksýnisspegilinn áður en ég gaf allt í botn út.
Gatan mín er svo illa rudd að það er erfitt fyrir þá sem eru að vinna í húsunum í kring að koma bílnum fyrir svo einhver brá bara á þetta ráð að planta bílnum sínum í mitt stæði. Æi, ég vona að ég fái nú að hafa þetta bílastæði mitt í friði.

|

04 febrúar 2008

Kappinn hann Maggi

Það er siður hér á Egisstöðum að vinnandi fólk skreppur heim til sín í mat, nema náttúrulega þeir sem borða í mötuneytum.
Í dag þegar ég var að fara aftur í vinnuna eftir að vera búin að fá mér bita og klappa Kolgrímu og Klófríði, þá vildi ekki betur til en svo að ég pikkfesti hann Súbba minn á bílastæðinu mínu. Það er nefnilega töluverður snjór hér í fjalllendinu á Egisstöðum og reyndar líka niður í dalnum, í aðal byggðinni.
Hvað um það, þarna var ég bara föst og komst hvorki lönd né strönd svo ég hringdi í Magga og bað um aðstoð.
Í götunni voru fastir bílar, stærri bílar en hann Súbbi minn og Maggi var ekkert lítið kappalegur þegar hann kom á stóra Landkrúsernum og sveigði fimlega í sköflunum framhjá föstum bílum og kom og bjargaði Súbba úr sjálfheldunni.
Súbbi fór bara inn í bílskúr en ég klöngraðist með erfiðsmunum upp í stóra Krúser og fór og sótti mér verkefni niður í vinnu sem ég tók svo bara með heim og var þar að vinna það sem eftir var dagsins. Stigbrettið á stóra Krúser er svona í brjóshæð á mér svo ég þarf eiginlega stiga til að komast upp í hann.
Maggi lánaði mér svo litla spari Landkrúserinn til að ég gæti farið á þorrablótsæfingu á Iðavöllum í kvöld. Fyrir svona klofstuttan kvenmann eins og mig er svo sem alveg nóg að klöngrast upp í óbreyttan Landkrúser.
Það má segja að eina ófærðin hér á Egilsstöðum og nágrenni er í götunni minni, enda hefur ekki sést snjóruðningstæki hér í 10 daga svei mér þá. Niður í þorpi eru stórir haugar af snjó sem hefur verið mokað af götunum.
En þorrablótsundirbúningurinn gengur bara ótrúlega vel, ég held að það stefni í að það verði haldið þorrablót á Völlum árið 2008.

|

Úti er alltaf að snjóa...

... hvað sem veðurspár segja, ég hélt að það ætti að vera hláka í dag.
Svo hefur ekki sést snjóruðningstæki í götunni minni alla síðustu viku svo nú er gott að vera á Súbarú.
En uppi í fjalllendinu fá skrifstofudragtir og þess háttar pjattfatnaður að hanga í friði inn í skáp, nú er það bara föðurlandið og snjóbuxur, lopapeysa og vettlingar.
Barnfóstrið gekk vel um helgina. Smá óvæntar uppákomur eins og vitlaust afgreidd pizza og Guðrún Lára átti erfitt með svefn því Kolgríma og Klófríður voru hoppandi um rúmið. Það endaði með að kettirnir voru gerðir brottrækir úr svefnherberginu og við sváfum í friði og ró eftir það.
Öll kvöld í þessari viku fara í þorrablótsundirbúning á Völlum. Það er verið að semja drápur, söngtexta, leikþætti og annál. Skreyta salinn og gera allt fínt.
En við höfum svo góða matmóður í hópnum að það fer líka tími í að sitja og raða í sig.
Vona bara að gestir blótsins skemmti sér eins vel og við í nefndinni skemmtum okkur við undirbúninginn.

|

01 febrúar 2008

Vikuendi

Jæja, enn einn vikuendinn.
Alltaf jafn notalegt þegar það er komið föstudagskvöld, allaf er að verða styttra og styttra á milli þeirra.
Í kvöld verður voða kósý hér í Skógarkoti. Ég var að enda við að snæða kvöldverð og framundan er að fylgjast með Fljótsdalshéraði í Útsvari, veit ekki hvort ég nenni að horfa meira á sjónvarp á einu kvöldi.
En á morgun verður gaman. Ég verð í þorrablótsundirbúningi inn á Iðavöllum fram eftir degi og svo fæ ég að fara í ömmuleik annað kvöld þegar krakkarnir hennar Elvu koma til mín.
Ég er búin að kaupa alls konar hlaupbangsa og fleira nammi í poka - æi, ég gleymdi ávaxtabrjóstsykrinum sem Daníel þykir svo góður - bæti úr því á morgun. Við pöntum okkur pizzu, en það hefur ekki verið gert á þessu heimili síðan ég flutti í Skógarkot. Svo látum við okkur bara líða vel meðan Elva og Einar skemmta sér á þorrablóti Fellamanna og krakkarnir gista hjá mér.
Það verður fjör fyrir Klófríði að fá hana Guðrúnu Láru til að leika við sig.

|