31 desember 2008

Gamársdagur

Þá er enn eitt árið á enda runnið.
Gamlársdagur hefur alltaf skipað sérstakan sess í minni fjölskyldu. 31. des. 1949 giftu pabbi og mamma sig og 31. des. 1979 giftum við Finnur okkur
Þessi mynd var tekin af okkur nýgiftum með frumburðinn, Finnur tók myndina á flottu Pentaxvélina sem hafði kostað hann ein mánaðarlaun kennara. Svona var verðlagið í þá daga. Finnur rétt náði að setjast áður en vélin smellti af.

Árið sem er að líða hefur verið viðburðaríkt hér í Skógarkoti. Eftir miklar þreifingar og mikið þóf ákváðum við Maggi að gerast kærustupar og það hefur lukkast vel hjá okkur.
Við erum m.a. búin að fara í tvær ferðir til útlanda og margar ferðir á fjöll. Þetta hefur allt verið mjög skemmtilegt eins og nokkra daga dvöl í Hvannalindum í sumar.
Hér erum við á þorrablóti 4x4 í Kverkfjöllum sl. vetur.

Hér erum við í Marokkó tveimur dögum fyrir bankahrunið mikla.

Framundan er ár sem verður erfitt fyrir margar fjölskyldur. Atvinnuleysi og þröngt í búi.
Sjálf er ég í nokkuð góðum málum og vona að ég standi af mér stormana sem munu blása. Það er mikils virði að eiga gott var í öruggu skjóli með vinum og vandamönnum.
Ég hef margt til að vera þakklát fyrir og ég held inn í árið 2009 með æðruleysisbænina í farteskinu: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Það er byrjaður undirbúningur fyrir kvöldið hér á bæ. Maggi er að handera rjúpur í þvottahúsinu og Kolgríma er að reyna að fá að taka þátt í því. Dagurinn verður notaður í að hafa til góðgæti til að bjóða gestum sem von er á í kvöld. Það sér svo vel yfir þorpið héðan úr Skógarkoti þannig að ef einhver hefur keypt flugelda þá sjáum við þegar þeim verður skotið upp.
Ég óska ykkur öllum gleði og friðar í kvöld, farsældar á nýju ári og bestu þakkir fyrir allt gott á árinu sem er að líða.

|

29 desember 2008

Í smá ömmuleik

Í gær fékk ég að bregða mér í smá ömmuleik.
Þeir komu norðan frá Húsavík feðgarnir Fannar, sonur Magga, og Magnús Atli.
Magnús Atli er 5 mánaða og er kominn með tvær tennur. Honum fer mjög vel fram litla manninum og er afskaplega hraustlegur. Svo brosir hann frá því hann vaknar og opnar augun, þar til hann sofnar og lokar þeim aftur.
Ég komst að því að það vantar eitt og annað hér í Skógarkot til að geta tekið á móti svona litlum gesti og ég verð að drífa mig í kaupfélagið okkar og kaupa sitt lítið af hverju.
Magga finnst full ástæða til að ég sé svolítið öfundsjúk af því að hann er afi en ég ekki amma. En ég er alveg búin að sætta mig við líf án barnabarna meðan dætur mínar eru í námi.
Eftir að þær funndu það út að ég setti ömmudrauminn á hilluna meðan þær eru í Háskólanum hafa þær planlagt alls konar framhaldsnám, meistargráður og doktorsnám.
Nú, þær verða þá bara vel menntaðar og það er nú aldeilis ágætt.

|

27 desember 2008

Uppáhalds jólalögin mín.

Saga úr sveitinni finnst mér alveg frábært jólalag.
Sungið af Ragnheiði Gröndal og Sigurði Guðmundssyni.
Baggalútur bjargaði jólunum 2004 hjá mér með Kósíheit par exelans, en ef ég kemst ekki í almennilegt jólaskap þá er bara að hlusta á jólakveðjurnar í gömlu Gufunni á Þorláksmessu eða á gömlu góðu Kókauglýsinguna.
Svo eru það náttúrulega þessi hátíðlegu lög sem fá mann næstum til að skæla, Sú nóttin var svo ágæt ein og Heims um ból.
Greogorian jólatónlist er líka yndisleg.

|

Milli jóla og nýárs

Þá er mesta átið yfirstaðið.
Þetta hafa verið yndisleg jól í Skógarkoti. Hér hefur kyrrð og friður ríkt og kettirnir hafa malað út í eitt. Afgangurinn af rjúpunum gerði mikla lukku hjá Kolgrímu en Klófríður var hrifnari af afgangnum af hamborgarhryggnum. Garpi fannst soðni fiskurinn bestur.
Uppþvottavélin hefur verið biluð síðan 21. desember en það hefur ekki komið mjög mikið að sök. Eldhúsið er að vísu ekki hannað með það í huga að þar sé stundað handuppvask en þetta hefur allt gengið ágætlega. Ég vona að mér takist að næla mér í einn rafvirkja eftir helgina.
Veðrið á Fljótsdalshéraði hefur verið með eindæmum fallegt yfir hátíðarnar og himininn hefur verið alsettur glitskýjum. Núna eru bleik ský á himni og Maggi er farinn með félögunum í 4x4 að leika sér á Smjörfjöllunum. Ég ætla hins vegar að heilsa upp á litla son Siggu löggu því hann verður skírður í dag.
Það væri ekki amarlegt að fá sér göngutúr í skóginum í þessu yndislega veðri en ætli ég verði ekki að láta öklann jafna sig betur áður en ég læt verða af því. Ég er hins vegar farin að aka um á Súbba mínum og búin að sleppa annri hækjunni þannig að þetta er allt á réttri leið.

|

25 desember 2008

Jól í Skógarkoti


Aðfangadagskvöld 2008

|

24 desember 2008

Gleðileg jól

Ég óska vinum og vandamönnum gleðilegra jóla.
Ég vona að við eigum öll notalega hátíð í vændum og að kvöldið verði ljúft og gott.
Hér í Skógarkoti er allt tilbúið fyrir aðfangadagskvöld jóla. Ég á eftir að skella mér í bað, Maggi ætlar að renna yfir gólfin með ryksugunni og svo verður farið að huga að því að elda rjúpur og hamborgarhrygg.
Við gátum ekki ákveðið hvað við ættum að hafa í matinn í kvöld og þar sem valkvíðinn var farinn að trufla okkur varð niðurstaðan sú að hafa engan forrétt, tvo aðalrétti, ávexti, ís, kaffi og konfekt síðar í kvöld ef magaplássið leyfir.
Kisurnar fá nýjan íslenskan fisk til tilbreytingar frá innfluttum kattamat.
Ég hlakka til að setjast niður eftir matinn, opna jólakortin og fá kveðjur frá vinum og ættingjum.
Guð gefi ykkur öllum friðsæla jólahátíð.

|

23 desember 2008

Þorláksmessa

Það er allt að verða tilbúið fyrir skötuveisluna.
Langborð fyrir 18 manns í bílskúrnum og Maggi er búinn að tengja gömlu hljómflutningstækin þar svo við getum hlustað á jólalög.
Saltfiskur, skata, nýr fiskur, rúgbrauð, smjör, rófur, karftöflur og hamsatólg. Svo verður pizza fyrir viðkvæma og matvanda.
Jólatréð stendur úti á palli og bíður þess að fá að koma inn í stofu. Við erum búin að versla allt sem þarf á eitt heimili til að halda herlega jólahátíð. Ég hlýt samt að hafa gleymt einhverju eins og mér er farið að hætta til að gera. Ég er alla vega ekki búin að fatta hvað það getur verið.
Í fyrramálið er ferðinni heitið í Vallanes til að setja greinar og ljós á leiðið hans Finns og þá mega jólin koma.

|

22 desember 2008

Jólin alveg að skella á

Það hefur nánast ekkert verið gert á þessu heimili fyrir jólin.
Ja, nema bara að hlakka til og skrifa jólakortin.
Í dag komust jólagjafirnar til dætranna suður og heimareyktu hangilærin úr Fljótsdalnum fylgdu með. Það er svo sem lítið sem ég hef hugsað mér að gera meira fyrir jólin, nema þrífa baðherbergið, skipta á rúminu og sópa gólfin. Og það verður látið duga þetta árið.
Ég komst loksins Maggalaus í búðir í dag. Ég hef ekki haft tækifæri til að kaupa síðustu jólagjöfina fyrr því Maggi hefur þurft að aka mér og hækjunum í búðir það sem af er mánuðinum. En í dag fór Dandý með mig í kaupstaðaferð og ég sótti jólatré, skötu og keypti þessa síðustu jólagjöf.
Annað kvöld verður skötuveisla í bílskúrnum og ég held að það komi 10 eða 12 gestir. Svo er bara eftir að ákveða endanlega hvað verður í jólamatinn. Valið stendur um hreindýrakjöt, rjúpur og hamborgarhrygg. Það eru síðustu forvöð annað kvöld að ákveða hvað af þessu verður tekið út úr frystinum.
Ég sé fram á að þetta verði bara jól eins og öll önnur jól hjá mér - ég ætla að gera allt milli himins og jarðar, kem fæstu í verk og jólin verða yndisleg þrátt fyrir það.

|

21 desember 2008

Dularfull jólasending

Þegar ég kom frá Höfn hékk plastpoki á útidyrahurðinni.
Ég er búin að reyna að komast að því hver hengdi þennan poka á dyrnar en hef ekki enn komist að því. Það var ekkert kort og engin skilaboð.
Pokinn innihélt heimabakað rúgbrauð og sítrónumauk í krukku.
Ég kann hálf illa við að vera að gæða mér á einhverju góðgæti sem ég veit ekkert frá hverjum er. Kannski að ég fari bara að trúa á jólasveina.
En hver sem þú ert sem skildir eftir þennan pakka til mín, hafðu bestu þökk fyrir.
Það var bylur í morgun en veðrið virðist vera að ganga niður. Nína vinkona kemur eftir hádegi og hjálpar mér að komast í búðir.
Mikið afskaplega verður gott þegar ég get farið allra minna ferða án þess að vera svona upp á aðra komin. En það hefur verið lærdómsríkt að þurfa að kynna sér ferlimál fatlaðra svona á eigin skinni.

|

19 desember 2008

Á Höfn

Það er jólalegt á Höfn í Hornafirði.
Við gistum á Hótel Höfn og fengum inni í útihúsi. Ég hélt að ástandið væri eins og í Betlihem forðum, að öll gistiplássin væru upptekin, en svo var ekki, það voru ekki aðrir gestir á hótelinu og ekki þótti svara kostnaði að kynda alla bygginguna upp fyrir okkur.
Það vakti athygli mína í gærkvöldi, þegar ég stóð utan við hótelið og virti fyrir mér sjörnubjartan himininn, að það barst óhemju þungt hljóð frá sjónum. Ég hef aldrei heyrt svona þungt hljóð í náttúrunni og þetta þunga ölduhljóð var ennþá í morgun þegar ég fór á fætur.
Alveg með ólíkindum að einhver skyldi taka upp á því að stela sér skipi og sigla út Hornafjarðarós í þessu brimi. Enn ótrúlegra að hann skyldi komast á haf út.
Ef ég væri útgerðarmaður á Höfn myndi ég athuga það að ráða þennan mann í vinnu.

|

18 desember 2008

Hvað eigum við að gera í þessu efnahagsástandi?

Við eigum alla vega ekki að sofa það af okkur.
Svo mikið er víst. Mér sýnist að stjórnvöld hafi fundið lausn á fólksflóttanum sem er að bresta á.
Úr því að fólksfjölgunartölur þjóðarinnar eru ekkert sérlega bjartar þá hafa stjórnvöld fundið leið til að sporna við fótum.
Við eigum ekki að sofan, nei, við eigum að vera heima og gera dodo., kannski að þetta verði til að fleiri börn fæðist.
Reyndar eru getnaðarvarnarlyf í sama hópi og stinningarlyf þannig að það er ekki víst að þetta herbragð lukkist.

|

16 desember 2008

Loksins

Jóhanna Sigurðardóttir er sá þingmaður sem ég virði mest.
Mér hefur virst hún standa sig best af þeim í að gera það sem gera þarf í þessu slæma árferði.
En þessi frétt jók á bjartsýni mína um að þjóðin fengi kannski uppreisn æru.

|

15 desember 2008

Mikilvægur starfsmaður

Hingað til hef ég haldið að ég væri mikilvægasti starfsmaðurinn í vinnunni.
Einhvern tíma var ég látin taka saman starfslýsingu og þar kemur fram hversu mikilvægt ég hef alltaf haldið að starf mitt væri.
Umsjón með daglegum rekstri stofnunarinnar, fjárreiður, inn- og útskráning á málum, skjalavarsla og alls konar umsjón með hinu og þessu.
Svo fer ég í hálfs mánaðar veikindafrí og þegar ég kom aftur í morgun átti ég von á að starfsemin væri lömuð og öll rauð ljós blikkandi.
En nei, ó nei. Það sem samstarfsfólki mínu þótti verst við fjarveru mína var að kaffið var uppurið.
Ég þarf að endurskoða starfslýsinguna mína.

|

14 desember 2008

Aftur til starfa

Loksins get ég farið að koma lífi mínu í eðlilegan farveg.
Ég mæti til vinnu á morgun eftir hálfan mánuð í eymd og volæði.
Maggi hefur komið í veg fyrir að ég tapaði geðheilsunni fyrir fullt og allt, en hann hefur verið ótrúlega þolinmóður í hjúkrunar- og umönnunarstörfunum.
Það sem mér finnst standa upp úr í fréttum undanfarinna daga eru mótmælin á Akureyri þar sem löggan gaf fólki heitt kakó, það var vel til fundið.
Mér finnst líka vel til fundið hjá Akureyringum að reisa minnisvarða um atburðina sem urðu til þess að skilja að framkvæmdavald og dómsvald á Íslandi. Nú er bara eftir að aðskilja framkvæmdavald og löggjafavald.
Svo eru það fréttir af Geir Ólafs. Hann vill örugglega vel með því að syngja fyrir frændur vora Færeyinga, en ég veit ekki hvort Færeyingar upplifi það sem þakklætisvott frá íslensku þjóðinni.
En landsfeðurnir virðast ekki ætla að koma sér saman um hvert sigla skal þjóðarskútunni. Ég er farin að verða hálf sjóveik í þessu volki.

|

13 desember 2008

Hvers á kartaflan að gjalda?

Mér þykja kartöflur ágætasti matur.
Það má matreiða þær á ýmsa vegu og þær eru ómissandi meðlæti með mörgum réttum. Hvað væri jólamaturinn ef ekki væru kartöflur með rjúpunum eða hangikjötinu.
Af hverju gefa jólasveinarnir kartöflu í skóinn hjá óþekkum börnum?
Ég hefði haldið að á krepputímum væri það bara fínt að fá mat í skóinn. Ef börn eru nógu óþekk þá eiga þau 13 kartöflur á aðfangadag og fjölskyldan getur haft sykurbrúnaðar kartöflur með jólasteikinni.
Nei, ég held að það sé hægt að fá margt verra en kartöflu í skóinn.

|

11 desember 2008

Hvort er betra að vera heftur eða saman saumaður?

Það kemur í ljós á morgun.
Þá verða heftin tekin úr fætinum á mér og mér er sagt að það sé vont að láta taka þau. Það er ekkert vont að láta taka saum, en heftin taka minna í en saumur.
Í dag á Anna systir mín afmæli og í dag eru 50 ár síðan séra Gunnar Árnason jós mig vatni og mér var gefið nafnið hennar Rannveigar ömmu minnar.
Það eru til nokkrar myndir úr skírnarveislunni. Þær bera það með sér að það hefur verið orðið hversdagslegt verk fyrir foreldra mína að láta skíra barn, enda var þetta sjötta skírnin á 10 árum hjá þeim.
Ein myndin sýnir afa að spjalla við prestinn, svo er mynd af veisluborðinu og gestunum en engin af skírnarbarninu.

|

09 desember 2008

Það er skítt að vera skynsamur

Ég er búin að blása af aðventuferðina til Akureyrar um næstu helgi.
Miðarnir á Frostrósir verða nýttir af öðrum og ég er búin að afbóka gistinguna á KEA.
Jæja, það góða við þetta er að ég eyði þá ekki ógrynni af verðlitlu krónunum mínum á Glerártorgi.
Það er eitthvað svo auðvelt að segja öðrum að fara vel með sig og taka því rólega en þegar maður þarf að segja sjálfum sér það vandast málið.
Ég tími bara ekki að leggja nýskorinn og snyrtann öklann minn í hættu, ekki einu sinni fyrir skemmtiferð norður í land.
Það er búið að vera svo notalegt lífið hér í Skógarkoti í dag. Ekki af því að Maggi fór norður í land í húsmæðraorlof, heldur af því að veðrið hefur verið svo fallegt.
Snæfellið skartaði sínu fegursta og þegar sólin var að setjast hafði það rauðbleikan bakgrunn en ofar var himininn gulgrænn og blár. Það var svolítill hrollur í mér svo ég kveikti upp í kamínunni og nú sit ég hér við eldinn og kisurnar liggja makindalegar á gólfinu framan við kamínuna.
Kannski er það ekkert svo voðalega skítt að vera skynsamur.

|

08 desember 2008

Framvegis ætti að banna

... að ráðherrar tali útlensku nema með aðstoð.
Ef að þetta er rétt, þá er ekki spurning að það verður að ráða nokkra túlka handa landsfeðrunum.
Svo eiga þessir málleysingjar að vera að semja við erlenda aðila um framtíð Ísland.
Er nema von að maður sé hræddur um að þeir semji af sér/okkur eða að þetta verði allt einn stór misskilningur hjá þeim?

|

Óttalegur eymingi

Nú er ég búin að vera farlama í rúma viku.
Ég er orðin hundleið á því og ekki bætti það skapið að þurfa að viðurkenna veikleika minn og tilkynna mig frá vinnu alla þessa viku líka.
Ég held samt í þá veiku von að við Maggi getum brunað til Akureyrar næsta föstudag í aðventuferð, en við eigum miða á Frostrósartónleikana og gistingu á KEA. Ætli ég verði mér ekki bara úti um hjólastól til að geta jólast smá á Glerártorgi.
Það er nú nóg að það sé kreppa og jólaverslunin fari að mestu í vaskinn þetta árið þótt mér verði ekki líka alfarið meinað að skoða jólaskraut í búðargluggum og anda að mér smá jólaverslunarstemningu.

|

05 desember 2008

Lata Gréta gerir við sjónvarp

Alltaf uppgötvar maður nýjar hliðar á sjálfum sér.
Í dag kynntist ég alveg nýrri hlið. Ég gerði við sjónvarpið mitt.
Um daginn þá ætluðum við Maggi að horfa á DVD disk en þetta tækniundur sjónvarpið, heimabíóið, routerinn og myndlykillinn hafa alltaf verið eins og hvert annað geimdót í mínum augum. Enda fór allt í klessu og það hefur ekki sést sjónvarp í Skógarkoti í nokkra daga.
En mér hefur verið slétt sama, horfi nánast ekkert á sjónvarp.
En í kvöld keppa mínir menn í Útsvari, Fljótsdalshérað keppir við Ljótu hálfvitana og ég má ekki missa af því.
Ég lagðist því á gólfið framan við geimgræjurnar, tók öll tengi úr sambandi, endurræsti routerinn, pússaði snjallkortið og gerði allar þær hundakúnstir sem mér komu í hug. Hringdi í Þónustuver Símans og fékk smá tækniaðstoð og viti menn. Nú er þessi fína sjónvarpsmynd komin á flatskjáinn og í fyrsta sinn síðan ég flutti í Skógarkotið sést Stöð 2 hér á heimilinu.
Aldrei hefði ég trúað því að mér tækist að koma svona tækniflækju til að virka.

|

04 desember 2008

Kisur í Skógarkoti

Klófríður og Kolgríma nenna ekki mikið út í vetrarríkið.
Þær láta fara vel um sig inni í hlýjunni og gera ekki mikið meira en að hafa sig að matardöllunum.
Klófríður hefur reyndar aðeins brugðið sér út á pallinn og það er stórskemmtilegt að fylgjast með henni að leika sér í lausamjöllinni. Hún dregur mallann niður í snjónum og grefur sig niður. Þegar hún kemur upp aftur er hún með snjó á hausnum og reynir að hreinsa hann af með loppunni. Hristir afturlappirnar og hoppar aftur inn.
Í gærkvöldi var ég með vatnsglas á náttborðinu ef ske kynni að ég myndi vakna upp með verki í fætinum og þyrfti að taka verkjalyf.
Ég var búin að slökkva ljósið og reyndi að sofna. Þá heyrði ég eitthvað undarlegt hljóð og fór að aðgæta hvað það væri. Var þá ekki bara Klófríður með hausinn ofan í glasinu að fá sér að drekka. Greinilega vissara að hafa lok á glasinu ef ég ætla að geta fengið mér að drekka á nóttunni.
Kolgríma er hin þóttafulla aðalsmær sem lætur ekki hafa sig út í svona kjánagang. Maggi færði mér skrifstofustól á hjólum svo ég gæti rennt mér um húsið en Kolgríma var fljót að slá eign sinni á þetta fína hásæti og hefur að mestu sofið þar síðan stólinn kom hingað í Skógarkot.
Ég veit ekki hvort ég þrauki það að halda mig hér í hægindastólnum út næstu viku. Það er bara ekki um margt að velja því ég fór á stúfana á þriðjudaginn og mætti í vinnuna og það hafði þær afleiðingar að fóturinn bólgnaði upp.

|

03 desember 2008

Engill

Mig langar út í snjóinn.
Leggjast á bakið og búa til engil.
Finna svalann af jörðinni.
Smakka á snjónum.

|

Lán í óláni

Það halda áfram að berast sögur af glötuðu orðspori þjóðarinnar.
Við erum aðhlátursefni um allan hinn vestræna heim og Íslendingar verða að fara huldu höfði ef þeir hætta sér út fyrir landsteinana.
En lítum á björtu hliðarnar. Við búum í svo fallegu landi að það er ekki hægt að vorkenna okkur það að komast ekki í borgarferðir niður til Evrópu. Ekki langar mig til London, svo mikið er víst. Ég fór þangað á síðustu öld og mig langaði aldrei þangað aftur, borgin höfðaði ekki til mín og maturinn var nú ekki upp á marga fiska.
Hugsum okkur að við værum í gíslingu í Hollandi. Þar er ekki lófastór blettur sem ekki er manngerður. Hvað ætti maður að taka sér fyrir hendur ef maður væri staddur í Hollandi og í þeirri aðstöðu að komast ekki út fyrir landamærin næstu misserin. Það væri náttúrlega hægt að skoða söfn, en það er þreytandi til lengdar.
Nei, það er gott að búa á Íslandi. Skaparinn hefur verið í essinu sínu þegar hann skóp þetta land okkar. Hlóð það alls konar náttúruperlum og stórbrotnu landslagi sem við ættum að muna eftir að vera þakklát fyrir og ganga um af virðingu.
Hver einasti íbúi Íslands hefur náttúrufegurð í sínu nánasta umhverfi og þarf ekki mikið meira en reiðskjóta postulanna til að komast í aðstöðu til að upplifa fegurðina. Ég er svo vel í sveit sett að ég þarf ekki nema horfa út um gluggana í Skógarkoti til að sjá gamlan íslenskan birkiskóg, Lagarfljótið, fjöll og heiðar sem nú eru snævi þakin.
Drukknum ekki í svartsýni, munum eftir því góða sem við eigum.

|

02 desember 2008

Starfsdagur

Í dag fær hægindastóllinn minn að mestu að eiga frí.
Maggi kemur á eftir og hjálpar mér að komast í vinnuna. Hann þarf sjálfsagt að styðja mig út í bíl því það er snjór og þó mér gangi ágætlega á hækjunum hér á parketinu gæti verið verra að prikast um á þeim í snjónum þar sem hálkublettir geta leynst undir.
Það verður nóg að gera í dag en áður en ég fór í aðgerðina var ég búin að búa í haginn niður í vinnu svo farlama gömul kona gæti unnið þar.
Svo tekur hægindastóllinn aftur við mér og ég hvíli í honum það sem eftir er vikunnar með löppina upp í loft.
Það er svo margt að gerast í kringum mig og í þjóðfélaginu. Alls konar atburðir sem ég hefði ekki trúað að gætu gerst.
Er Ísland á barmi borgarastyrjaldar? Hvar enda þessi ósköp öll?
Það er eins og þeir sem með fjármál fara séu illa haldnir af siðblindu. Öll varnarnet hafa hrunið og maður stendur eftir einn og berskjaldaður.

|

01 desember 2008

Afastrákur

Trausti svili minn hefur gengið til rjúpna á hverju ári.
Hann hefur gert það í meira en hálfa öld, en nú skilar hann sér ekki heim.
Gunnar afastrákur situr hjá Guðrúnu ömmu, lætur loga á litlu kerti og bíður þess að afi finnist.
Ég hef kveikt á kerti, Gunnari til samlætis og bið að Guð gefi að Trausti afi finnist fljótt. Það er svo sárt að vita hann liggja einan úti í vetrarkuldanum.

|