02 desember 2008

Starfsdagur

Í dag fær hægindastóllinn minn að mestu að eiga frí.
Maggi kemur á eftir og hjálpar mér að komast í vinnuna. Hann þarf sjálfsagt að styðja mig út í bíl því það er snjór og þó mér gangi ágætlega á hækjunum hér á parketinu gæti verið verra að prikast um á þeim í snjónum þar sem hálkublettir geta leynst undir.
Það verður nóg að gera í dag en áður en ég fór í aðgerðina var ég búin að búa í haginn niður í vinnu svo farlama gömul kona gæti unnið þar.
Svo tekur hægindastóllinn aftur við mér og ég hvíli í honum það sem eftir er vikunnar með löppina upp í loft.
Það er svo margt að gerast í kringum mig og í þjóðfélaginu. Alls konar atburðir sem ég hefði ekki trúað að gætu gerst.
Er Ísland á barmi borgarastyrjaldar? Hvar enda þessi ósköp öll?
Það er eins og þeir sem með fjármál fara séu illa haldnir af siðblindu. Öll varnarnet hafa hrunið og maður stendur eftir einn og berskjaldaður.

|