28 nóvember 2008

Komin heim skorin og snyrt

Þá er spítalavistin mín á Norðfirði um garð gengin.
Þetta gekk ljómandi vel. Ég var heppin að Maggi fór með mér. Það var blindbylur á Fagradal í morgun og í skriðunum ofan við Reyðarfjörð voru nokkrir bílar út af veginum, m.a. einn stór jeppi.
En við mættum á réttum tíma á spítalann og þar fékk ég afskaplega notalega umönnun.
Einu sinni hafði ég mikla fordóma fyrir sjúkrahúsinu í Neskaupstað og var búin að segja mínum nánustu að ef ég missti meðvitund vildi ég frekar fara á haugana en á Norðfjarðarspítala.
Það er mörg ár síðan ég fékk að kyngja þessum fordómum og hroka enda hafa mínir nánustu fengið mjög góða hjúkrun þar og ég er mjög ánægð með mína vist á fjórðungssjúkrahúsinu.
Ég fékk afskaplega góðan stofufélag, frænku mína Erlu Óladóttur frá Borgarfirði eystra. Þetta varð því bara hin skemmtilegasta spítaladvöl.
Maggi beið eftir að búið yrði að snyrta á mér hælinn og við vorum komin heim fyrir kvöldmat.
Veðrið var nú skárra á heimleiðinni en mikið var gott að koma í Skógarkotið og hreiðra um sig í gamla hægindastólnum.
Nú hoppa ég um á hækjum og Maggi er eins og engill af himnum sendur og snýst eins og skopparakringla í kringum mig.
En að ástandinu í þjóðfélaginu. Mikið vildi ég að í öllum þessum fjöldauppsögnum væri haft að leiðarljósi að einungis annað hjóna missi vinnuna. Það er skelfilegt ef báðar fyrirvinnur heimilisins standa uppi tekjulausar.

|