27 nóvember 2008

Tilbúin í úrbeiningu.

Ja, kannski ekki alveg úrbeiningu en næsti bær.
Það á eitthvað að krukka í hælbeinið.
En ég er tilbúin, allt er þvegið og fínt í Skógarkoti og ég er að þvo af rúminu. Ég er búin að fylla körfu við hliðina á hægindastólnum mínum. Í henni er útsaumsdót, krossgátur og spennusaga. Svo byrjaði ég í gær að lesa um Önnu á Hesteyri og held áfram að lesa hana þegar ég kem aftur af spítalanum. Mér sýnist hún nafna mín hafa staðið sig vel í skrifunum um Önnu.
Mig vantar bara Orðspor Gunnars Hersveins og þá er ég alveg sátt við að vera farlama í einhvern tíma.
Ég er búin að fá hækjur til að nota þegar ég kem heim og ég verð að viðurkenna að ég er ekki lipur að hoppa um á hækjum. Gott ef það eru ekki holur í gólfinu þar sem ég var að æfa mig.
Annars er svo sem spurning hvort ég kemst á Norðfjörð á morgun, veður og færð eru ekki upp á það besta. En Maggi er kappi á góðum jeppa og hann hlýtur að koma mér yfir Fagradal og Oddsskarð í fyrramálið og aftur heim síðdegis á morgun.
Þá er bara að fá sér gott kaffi og hefja svo föstuna.

|