20 nóvember 2008

Í takt við tímann

Það er kominn hávetur á Héraði.
Jörð er alhvít, það snjóar og hefur gert síðan í gærkvöldi. Nú er tíminn til að kósa sig framan við arineld með kakó í bolla. Jólaljósin mættu alveg fara að sjást.
Guðlaug mágkona gaf mér þessar líka fínu grifflur sem hún prjónaði sjálf. Þær eru alveg yndislegar á mínar fimmtugu hendur, ekki síst þar sem ég er með ganglion á öðrum úlnliðnum. Ég er eins og nirfill í sögu eftir Dickens þar sem ég spóka mig með fínu ullargrifflurnar.
Annars er ég greinilega komin á viðhaldsaldur. Næsta þriðjudag fer ég á Norðfjörð að hitta bæklunarlækni sem ætlar að skoða hægri öklann, en það er kominn einhver kúla aftan á hann auk þess sem hásinin er búin að vera bólgin í marga mánuði.
Ég sem hef alltaf verið hreystin uppmáluð, nú er ég farin að finna alls konar krankleika í liðum og ég er ekki eins sterk og áður.
Það er af sem áður var þegar Anna systir var að láta flytja píanó og fyrsta kraftamanneskjan sem henni datt í hug að fá til að aðstoða sig var ég. Svo braut hún heilann hvort hún þekkti nógu sterka karlmenn til að halda undir píanóið með mér.
En hvað um það, maður bara lagar sig eftir aðstæðum, alveg jafnt hvað heilsuna varðar og efnahaginn.

|