Lítill snáði
Sigga lögga fæddi dreng í morgun.
Hann ku vera mesti myndardrengur en ég fæ ekki að sjá hann strax.
Hér á Egilsstöðum má geta börn en það má ekki fæða þau. Það verður að fara í aðrar sveitir til þess að koma litlu krílunum í heiminn.
Konur geta valið um að fara til Norðfjarðar, Akureyrar eða Reykjavíkur. Það kemur samt fyrir að konur ali börn sín heima því sem betur fer eru enn til konur hér á Héraði sem búa yfir þeirri þekkingu að taka á móti börnum. Það er bara engin opinber fæðingaraðstaða í sýslunni.
Konur hafa lent í því að vera neitað um flugfar suður af því að þær hafa átt eftir stutta meðgöngu, en Sigga slapp, enda í góðri fylgd.
Hún flaug suður til Reykjavíkur á mánudag, útréttaði í borginni í gær og fæddi svo drenginn í morgun. Hún ætlar greinilega ekki að eyða of miklum tíma í borginni.
Ég hlakka til að þau mæðgin komi heim og ég fái að sjá litla fósturömmubarnið mitt.
Til hamingju Sigga mín með drenginn þinn.