16 nóvember 2008

Takk kærlega fyrir mig

Afmælið mitt tókst aldeilis vel.
Alla vega frá mínu sjónarhorni séð.
Skógarkot rúmaði vel alla gestina, maturinn lukkaðist vel og allir voru kátir og glaðir. Það var sungið, farið með gamanmál og rifjaðar upp margar skemmtilegar sögur frá liðnum árum.
Það var með ólíkindum hvað menn létu lítið áfengi ofan í sig, en sem betur fer gekk maturinn vel ofan í menn. Ég bað menn ítrekað að vera duglegir að bjarga sér í mat og drykk, en samt var næstum helmingurinn af áfenginu afgangs.
Ég sem var dauðhrædd um að ég hefði ekki keypt nóg og sagði mest í gamni að Maggi mætti eiga afganginn ef einhver yrði því ekki drekk ég.
Nú á Maggi marga bjórkassa og nokkrar léttvínsbeljur. Ég ætla rétt að vona að hann drekki þetta ekki allt í einu.
Ég er svo þakklát fyrir hvað menn voru duglegir að leggja á sig langt og dýrt ferðalag til að koma og eiga með mér þessa kvöldstund, því það voru margir sem komu fljúgandi að sunnan.
Ég þakka ykkur öllum kæru vinir og vandamenn fyrir að þið skylduð gefa ykkur tíma til að koma og gleðja mig með nærveru ykkar, já og takk kærlega fyrir rausnarlegt framlag til nýrnasjúkra, en það var drjúgur sjóður sem kom upp úr söfnunarkassanum.

|