10 nóvember 2008

Lán í óláni

Í upphafi kreppunnar endurskoðaði ég heimilisútgjöldin.
Ég fór m.a. yfir tryggingamálin mín og ég breytti um heimilistryggingu. Fékk einhverja sem ekki inniheldur trygginar á ferðalögum erlendis - enda sé ég ekki fyrir mér utanlandsferðir næsta tryggingaárið. Svo bætir þessi sem ég valdi mér ekki tjón vegna barna undir 16 ára aldri og það gerir ekkert því ég á ekki einu sinni barn undir tvítugu.
Það kom mér því þægilega á óvart þegar ég hafði samband við tryggingafélagið mitt í morgun og það kom í ljós að líklega fæ ég þvottavélina bætta. Þeir komu í dag og mynduðu líkið af henni í bak og fyrir. Dáðust að nýju vélinni í leiðinni og létu í ljós að ég hefði aldeilis verið flott á því í þvottavélakaupum. Ég sem keypti ódýrustu vélina sem til var á Egilsstöðum. Ég hefði kannski átt að láta mér nægja þvottabretti.
En hvað um það. Súbbi minn fór í skoðun í morgun og kettirnir til dýralæknis svo hér í Skógarkoti er allt á réttu róli. Bíllinn með fulla skoðun og Kolgríma og Klófríður bólusettar og ormahreinsaðar.

|