Kisur í Skógarkoti
Klófríður og Kolgríma nenna ekki mikið út í vetrarríkið.
Þær láta fara vel um sig inni í hlýjunni og gera ekki mikið meira en að hafa sig að matardöllunum.
Klófríður hefur reyndar aðeins brugðið sér út á pallinn og það er stórskemmtilegt að fylgjast með henni að leika sér í lausamjöllinni. Hún dregur mallann niður í snjónum og grefur sig niður. Þegar hún kemur upp aftur er hún með snjó á hausnum og reynir að hreinsa hann af með loppunni. Hristir afturlappirnar og hoppar aftur inn.
Í gærkvöldi var ég með vatnsglas á náttborðinu ef ske kynni að ég myndi vakna upp með verki í fætinum og þyrfti að taka verkjalyf.
Ég var búin að slökkva ljósið og reyndi að sofna. Þá heyrði ég eitthvað undarlegt hljóð og fór að aðgæta hvað það væri. Var þá ekki bara Klófríður með hausinn ofan í glasinu að fá sér að drekka. Greinilega vissara að hafa lok á glasinu ef ég ætla að geta fengið mér að drekka á nóttunni.
Kolgríma er hin þóttafulla aðalsmær sem lætur ekki hafa sig út í svona kjánagang. Maggi færði mér skrifstofustól á hjólum svo ég gæti rennt mér um húsið en Kolgríma var fljót að slá eign sinni á þetta fína hásæti og hefur að mestu sofið þar síðan stólinn kom hingað í Skógarkot.
Ég veit ekki hvort ég þrauki það að halda mig hér í hægindastólnum út næstu viku. Það er bara ekki um margt að velja því ég fór á stúfana á þriðjudaginn og mætti í vinnuna og það hafði þær afleiðingar að fóturinn bólgnaði upp.