30 september 2005

Laufblöðin falla

 

 

Benzi minn var þakinn laufblöðum þegar ég kom út í morgun. Elritrén standa hálf nakin framan við húsið og það er snjó niður í miðjar hlíðar í fjöllum. Svo bara rignir og rignir. Þetta er ekki rétti árstíminn til að mæta í vinnuna, maður væri betur geymdur undir sæng með góða bók.

 

Við Kolgríma erum búnar að taka að okkur fósturbörn. Ellefu ára stúlkukind og þriggja mánaða kettling sem hún á. Ég gæti stúlkunnar en Kolgríma gætir Grislings, en svo heitir litli kisinn. Það gekk á ýmsu kvöldið sem fósturbörnin komu. Kettirnir slógust og hvæstu á hvorn annan og í fyrradag voru þeir hafðir alveg aðskildir. Í ær höfðum við Kolgrímu og Grisling í sama rýminu meðan ég var í vinnunni og fósturdóttirin í skólanum. Ég átti allt eins von á að íbúðin yrði eins vígvöllur en þegar ég kom heim í hádeginu kúrðu kisurnar saman á uppáhalds staðnum hennar Kolgrímu, þ.e.a.s. á bómullarastykki, úti í horni á stofuglugganum, yfir heitum ofninum og með útsýni út í garð. Íbúðin ber þess merki hvað kettirnir aðhafast þegar þeir eru einir heima og gluggakistan í stofunni er öll út í kattasporum. En hvað með það, það þarf hvort eð er að þrífa um helgina.

 

Kettirnir eru ótrúlega skemmtilegir á að horfa þegar þeir leika sér saman.

 

Kolgríma veit fátt skemmtilegra heldur en þegar ég set skúringadiskinn í spilarann og fer að dansa um húsið með afþurrkunarkústinn, -klútana og moppurnar. Hún tekur sér far með moppunni, er reyndar að verða of stór til þess, og reynir að veiða afþurrkunarkústinn. Ég varð að kaupa nýjan kúst og gefa henni þennan gamla til að leika með. Hins vegar tryllist hún og hleypur í felur ef ég fer að ryksuga.

 

Fósturbörnin verða hjá okkur fram á sunnudag og það er ágætt að fá smá líf í húsið. Blómin mín eru öll komin annað hvort upp í hæstu hillur eða í lokuð herbergi því báðir kettirnir hafa einstaklega gaman af að róta moldinni út um allt.

 

Speki dagsins: Sjaldan fellur smiður langt frá stillansa.

 

 

|

29 september 2005

Reykjavík ó Reykjavík

Ég hef verið að brjóta heilann um einn umdeildasta blett á jarðríki, þ.e.a.s. Vatnsmýrina í Reykjavík. Eins gott að hryðjuverkasamtök úti í heimi fylgist ekki með íslenskum fjölmiðlum, menn þar gætu fengið þá hugmynd að þarna væri nafli hins vestræna heims.

En hvað um það, ég var að hugsa um hvort borgarstjórinn í Reykjavík hafi aldrei séð borgina úr lofti. Ef maður situr í flugvél sem tekur á loft frá Reykjavíkurflugvelli á góðviðrisdegi og tekur fyrst stefnuna á haf út en snýr svo til baka og flýgur yfir borginni þá virðist manni þessi Vatnsmýri engan veginn vera miðja Reykjavíkur. Flugvöllurinn virðist, séður úr lofti, vera næstum á endimörkum borgarinnar. Skrýtinn staður til að búa til miðbæjarkjarna.

Að vísu var það þannig þegar Reykjavík varð höfuðborg Íslands að Austurvöllur og Kvosin voru nærri því að vera í miðjum bænum, en hafi menn ekki  tekið eftir því skal á það bent að það hafa byggst heilu hverfin í austurátt frá Vatnsmýrinni og nú virðist manni að aðal byggðin sé austan Kringlumýrarbrautar og maður sér fyrir sér að flestir Reykvíkingar muni búa þar.

Hvað á allt þetta fólk að vera að valsa um í Vatnsmýrinni? Ég sé fyrir mér endalausa umferðarhnúta þegar allt þetta fólk ekur heiman frá sér til að njóta þess að spóka sig í nýja miðbænum sínum. Alla vega hlýtur að eiga vera fólk í þessum miðbæ ef það á að vera eitthvað líf í honum.

Ef maður horfir á Reykjavík úr lofti virðist Laugardalurinn vera nær miðju, svo ekki sé talað um Elliðaárdalinn. Úr því að Reykvíkingar vilja breyta til, hvernig væri bara að flytja Jón Sigurðsson af Austurvelli og koma honum fyrir á Geirsnefinu við Elliðaárnar? Ef Geirsnefið er ekki nógu stórt er örugglega ekkert meira mál að stækka það en að moka Reykjavíkurflugvelli í burtu. Sjáið bara fyrir ykkur íbúa fjallahéraðanna í Reykjavík skunda í 17. júní göngu niður Elliðaárdalinn og Ártúnsbrekkuna með glaðværa skáta í fararbroddi? Það væri flott. Svo er stutt í Skeifuna og allar verslanirnar þar. Það væri hægt að búa til göngugötu úr endanum á gömlu Suðurlandsbrautinni frá Geirsnefi niður í Skeifu og þar gætu verið alls konar gleðihús, verslanir og hugguleg kaffihús.

 

Þakka öllum sem heilsuðu upp á Lötu Grétu í gær.

 

Speki dagsins: Lífið er tækifæri, gríptu það.

 

|

28 september 2005

Lata Gréta lítur dagsins ljós

 

Í skógarjaðrinum stóð gamall, stráþakinn kofagarmur. Allar rúður voru brotnar í honum, hurðin hékk varla á hjörunum og í girðingar stað voru þistlar og brenninetlur. Í þessum kofa bjó telpukorn með Kisu sinni. Nágrannarnir kölluð telpuna lötu og leiðinlegu Grétu. Þannig hefst sagan sem fylgt hefur mér frá blautu barnsbeini. Þetta er tékkneskt ævintýri ritað af Emil Ludvik og kom út í íslenskri þýðingu Hallfreðar Arnar Eiríkssonar árið 1960. Bókin er skemmtilega myndskreytt og myndir hér á bloggsíðunni eru úr þessari bók. Ég held ég hafi fengið 1. bókina þegar ég var á 3. ári, en áður en yfir lauk var ég búin að fá þrjú eintök því það varð að endurnýja bókina reglulega svo miklu ástfóstri tók ég við hana.

Ég á eitt og annað sameiginlegt með Lötu Grétu, ég bý t.d. með henni kisu minni og ég ætlaði að laga þakið á húsinu mínu í sumar en kom því ekki í verk. En það kemur sumar eftir þetta sumar og ég vona að kisa hafi sig í að hjálpa mér við að mála þakið næsta sumar.

Öll tæknivinna við uppsetningu þessarar bloggsíðu var í höndum Tótu í Tölvusmiðjunni og hún þarf örugglega að halda í höndina á mér fram eftir vetri ef ég á að koma einhverju efni inn á síðuna. Tóta er hæfileikarík kona og býr m.a. til rosalega góðan forrétt, sítrónumarineraðan silung. En í Tölvusmiðjunni er fleira hæfileikaríkt fólk. Þar er t.d. hann Bjarni granni minn sem bakar heimsins bestu súkkulaðiköku sem hefur fengið nafnið Góða nágrannakakan. Einhvern tímann skal ég setja uppskriftina hér inn á síðuna. (þessi færsla er í boði Tölvusmiðjunnar)

 

Speki dagsins: Áður en þú finnur prinsinn, þarftu að kyssa heilt helvíti af froskum.

 

Lata Gréta – farin að hvíla sig.

|

21 september 2005

Mjjjááááá......

Halló, halló, hér erum við Kolgríma

|