31 október 2007

Ljúfar uppskriftir

Ég var að gæða mér á safaríkri og sætri appelsínu.
Þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég var stelpuskott þá þótti mér rosalega gott að búa til gat á appelsínu, troða inn sykurmola, helst tveimur, kreista appelsínuna og sjúga upp í mig sætan safann. Nammi, namm.
Þetta var áður en nammidagurinn var fundinn upp og maður varð að reyna að verða sér út um sætindi í eldhússkápunum hjá mömmu. Smákökur lágu ekki á lausu, þær voru í innsigluðum járndunkum allan desember og innihaldið var ekki á boðstólum fyrr en um jól og áramót.
En það mátti kitla sykurbragðlaukana með því að fá smá sykur í bolla, stinga rabbarbarastilk eða gúrkubita ofan í og smjatta svo á honum. Smyrja franskbrauð og strá hvítum sykri yfir. Þekja kex með rabbarbarasultu.
Drullumall. Það var í algeru uppáhaldi, haframjöl, kakó, sykur og mjólk hrært saman - þetta var áður en kókómaltið kom til sögunnar.
Það sem maður gat borðað furðulega rétti. En hvað gerði maður ekki til að fá sykurbragð í munninn.

|

30 október 2007

Fyrsta færslan

Ég var að skoða upphafsdaga Lötu Grétu.
Fyrsta færslan er kynning á því hvernig á því stendur að bloggsíðan mín heitir Lata Gréta. Það er af því að ég hef ekki þekkt neina sögupersónu lengur en hana Lötu og leiðinlegu Grétu og mér hefur alltaf þótt svo vænt um hana
Í skógarjaðrinum stóð gamall, stráþakinn kofagarmur. Allar rúður voru brotnar í honum, hurðin hékk varla á hjörunum og í girðingar stað voru þistlar og brenninetlur. Í þessum kofa bjó telpukorn með Kisu sinni. Nágrannarnir kölluð telpuna lötu og leiðinlegu Grétu.
Svona hefst tékkeska ævintýrið og það sniðuga er að nú er svo komið að ég bý ein með henni kisu minni í húsi í skógarjaðrinum. Ekki í kofa, heldur í húsi, ég hef það fram yfir Lötu Grétu.

|

Okkar maður

Stundum á ég erfitt með að átta mig á fréttaflutningi.
Við erum alltaf að heyra af stórsigrum landa okkar í íslensku útrásinni og maður fyllist þjóðarstolti. Jón í Magasín, Sigurjón í Hollývúdd og Magnús í Latabæ.
Núna er ég eiginlega ekki alveg viss til hvers er ætlast af mér sem Íslendingi. Á ég að vera stolt af "okkar manni", eins og ég las í einum fjölmiðlinum, þessum sem var að reyna að kúga fé út úr bresku konungsfjölskyldunni?
Svolítið svona að reyna áð átta mig á þessu.

|

Snjór

Jörðin er alhvít á Héraði.
Í gærkvöldi var ég stödd í ævintýraheimi þegar ég horfði á snjóinn leggjast yfir skóginn og ljósin niður í kvosinni bregða ævintýrabirtu á bæinn. Þetta minnir á glerkúlurnar sem maður hristir og hvít korn líkja eftir snjókomu, þessar sem ég gat setið með þegar ég var krakki og ímyndað mér heila veröld inn í lítilli kúlu.
Kolgríma gægðist varlega út um garðdyrnar í morgun, nusaði af snjónum, steig gætilega út og horfði á þessa nýju veröld sem var ekki þarna í gær þegar hún fór síðast út.
Á svona stundum langar mig að vita hvað þessi litla vera hugsar.
Hún læddist út af pallinum, hvert spor hálf hikandi og þegar hún var komin þangað sem jarðvegur er undir snjónum fór hún að róta af miklum áhuga í snjónum.
En svo þegar ég kallaði á hana, mjálmaði hún og tók stökkið aftur inn í hlýja stofuna, fór að matarhorninu sínu og aðgætti hvort það væri ekki eitthvað gott á boðstólum.

|

29 október 2007

Húsasmiðjan

Ég er alvöru húsbyggjandi. Ég á reikning í Húsasmiðjunni.
Ég kem í Húsasmiðjuna, finn eitthvað sem mig langar í og segi "þú setur þetta bara í reikninginn minn". Mér finnst ég svo eitthvað mikið alvöru þegar ég versla í reikning í byggingavöruverslun.
Reyndar er svo sem búið að byggja húsið og ég hef það afskaplega gott. Þegar ég var að fara í vinnuna í dag þá stoppaði smiður mig hér úti í götu og spurði hvort garðhurðin væru ekki eitthvað stíf. Sagðist hafa fengið ordru um að laga hana. Ég var ánægð með það enda hef ég þurft að beita öllum mínum þunga og öllum mínum kröftum til að loka henni og læsa. Þið getið því ímyndað ykkur hvursu stíf hurðin var. Þegar ég kom heim úr vinnunni var hurðin lipur eins og ballerína.
Nema hvað, ég ætlaði að tala um Húsasmiðjuna. Ég þarf svo sem ekki að versla mikið eða merkilegt þó ég eigi þennan reikning, mér skylst að BYKO og Húsó pikki út alla sem eru að kaupa húsnæði og bjóði þeim reikingsviðskipti.
En í dag fór ég til að kaupa mér nagla, mig vantaði 10 litla nagla. En hva, það er ekki hægt að kaupa sér nagla nema kaupa kassa með 1.000 nöglum í - hvað í ósköpunum á ég að gera við þessa 990 sem verða afgangs? En sem betur fer eru konur að afgreiða í Húsó og skilja hvað vandamálið er og leysa það.
Svo fannst mér ég bara svolítið flott með lítinn poka með nokkrum nöglum í þar sem ég beið eftir að fá afgreiðslu á kassanum og karlinn á undan mér var að kaupa alls konar rör, hné og fittings eða hvað þetta heitir allt saman.

|

Það munaði engu

að ég henti gemsanum mínum.
Ég er ekkert búin að eiga þennan gemsa lengi, ég held ég hafi keypt hann sl. vor. Á laugardaginn var ekkert lífsmark með honum, ég gerði allt sem mér datt í hug, opnaði hann, lokaði honum, setti hann í hleðslu en það gerðist ekkert. Það kom reyndar mynd af batteríi og skilaboð um að það væri verið að hlaða rafhlöðuna.
Ég var farin að sótbölva þessari símatækni og öllu sem henni fylgir. Það tók hálfan mánuð að fá heimasímann tengdan, það eru þrjár vikur síðan ég bað um að sjónvarpið væri tengt við a-dé-ess-ellið, en ekkert gerist, það kemur enginn að tengja og ég er búin að hringja tvisvar og minna á mig. Skipir svo sem engu, Kolgríma er að verða búin að naga í sundur allar snúrur sem liggja að og frá sjónvarpinu og heimabíóinu.
Svo var ég alveg að bilast yfir gemsanum, var að spá í að henda honum bara í Eyvindaránna. Leitaði út um allt að fínu klukkunni sem ég keypti í Damerkurferðinni í haust en hún var nú aldeilis vel falin - fannst nú samt að lokum.
Þegar ég var alveg um það bil að snappa gerðist nokkuð merkilegt. Mér datt í hug að kveikja á símanum og viti menn, hann var í fínu lagi.

|

26 október 2007

Verkfærakassinn minn

Ég er svo hrifin af verkfærakassanum mínum.
Sum verkfærin eru eldgömul, alveg frá því á síðustu öld. Eins og tangarsettið mitt. Þetta þóttu nú ekki merkilegir gripir þegar ég fjárfesti í þeim, en mikið afskaplega hafa þeir komið að góðum notum. Eins og áðan þegar ég þurfti að draga út hilluhaldaratitt úr IKEA bókaskáp sem ég var að setja saman.
Svo eru í verkfærakassanum tveir hamrar, 3 skiptilyklar - einn svo lítill og sætur að ég get haft hann í veskinu mínu. Svo er eitthvað dót, slatti af gömlum IKEA sexköntum, skrúfjárn af ýmsum gerðum og stærðum og svo flotta skrúfjárnasettið sem ég keypti í Húsasmiðjunni um daginn, því hver húsbyggjandi verður að eiga svona lágmarks kit í verkfæratösku.
Frá því að ég var að væla hér á blogginu í gær þá hef ég nú komið ýmsu í framkvæmd, ég pantaði tíma í olíuskiptum og skoðun. Bíllinn ferðast milli Frumherja og Dekkjahallarinnar á mánudaginn, sæll og glaður.
Ég er líka búin að vinna það stórafrek að setja sama tvo Billy-bókaskápa og í kvöld er ég að púsla glerhurðunum á þá.
Sexkanturinn virðist vera búinn að syngja sitt síðasta hjá IKEA. Í gamla daga fylgdi sexkantur með öllum vörum þaðan, svei mér ef hann var ekki með hnífaparasettunum líka. Núna er bara ætlast til að maður eigi sjálfur verkfæri og þá kemur svona heimilisverkfærakassi sér vel.
Svo ræddi ég við hann Gísla garðyrkjufræðing á Kaldá um garðinn minn. Hann kom með góðar hugmyndir sem þarf að útfæra. Annars sagði ég honum að ég gæfi honum frjálst hugmyndaflug, ég væri til í hvað sem er nema garðálfa og blómabeð sem þarfnast stöðugrar umönnunar.
Loks verð ég að láta það fylgja með að þessi nýja tölva mín er hreinn unaður. Þetta er fyrsta tölvan sem ég eignast og er glæný. Ég hef nokkrum sinnum fengið nýjar tölvur í vinnunni, en þetta er allt annað, þetta er mín tölva. Allar tölvur sem ég hef hingað til átt prívat og persónulega hafa verið uppgjafatölvur frá góðhjörtuðum vinum og vandamönnum.

|

25 október 2007

Dropinn sem fyllti mælinn

Oft veltir (eða veldur) lítil þúfa þungu hlassi.
Hvort skyldi nú vera rétt - ég þarf að fletta þessu upp þegar ég fer í að taka upp orðabækurnar mínar.
Ég er búin að standa í alls konar stórræðum á árinu. Miklum fasteignaviðskiptum og alls konar mikilvægum ákvarðanatökum.
Ég hef að mestu staðið í þessu ein. Vinir og vandamenn hafa auðvitað hjálpað mér með verklegar framkvæmdir, annars hefði ég ekki ráðið við allt sem ég hef verið að framkvæma. En allar ákvarðanatökur hafa auðvitað verið í mínum höndum og í mínum haus.
Það hefur ekki farið framhjá ykkur sem lesið þessa bloggsíðu endrum og sinnum að ég hef verið að koma mér upp nýju heimili og því fylgir ótrúlega mikið af snúningum.
Svo var það hér einn daginn þegar ég hafði verið að vinna eitt og annað og er að aka í vinnuna að mér verður litið á kílómetramælinn á bílnum. Jesús, Pétur og Jóhannes, ég átti örugglega að vera búin að fara með bílinn í olíuskipti. Svo á hann að fara í skoðun núna í október.
En þar sem ég var nú að velta fyrir mér þessum olíuskiptum þá helltist yfir mig hugsun um það hvað það getur verið þreytandi að þurfa að hugsa ein um alla hluti, að sjá um að allt vélvirkið gangi rétt og að öll tannhjól séu smurð á réttum tímum.
Ég var næstum farin að skæla af sjálfsvorkunn.
Mér fannst það nú samt fyndið þegar þessi smávægilega örvænting bráði af mér að hugsa til þess að bara það að opna hanskahólfið og kíkja í olíubókina skyldi verða svona mikið mál í mínum huga.
Mannshugurinn er skrýtin skrúfa.

|

Hver og hver og vill og verður

koma með mér á bændahátíð í Valaskjálf 3. nóv. nk.?
Mig langar á bændahátíð en vinir og vandamenn hafa tekið þá ákvörðun að vera út og suður þennan dag, nú eða þeim finnst það of sveitó og hallærislegt að fara á bændahátíð.
Ég held hins vegar að þetta verði hátíð hin mesta, matur góður og mikil gleði.
Borðherra óskast, má vera dama.

|

24 október 2007

Skógarkisa

Kolgríma hefur uppgötvað dásemdir skógarins.
Hún hefur verið mjög lítið fyrir að vera út, aðeins svona kíkt hér fyrir húshornið, nusað upp í vindinn og drifið sig svo aftur inn. Þar til í dag, hún hefur farið hverja ferðina á fætur annarri í spássitúr í skóginum.
Í kvöld var ég með smá matarboð. Nokkrir vinir og vandamenn komu og gæddu sér á sviðum með mér.
Kolgríma hefur eitthvað tekið þessa sviðaveislu of bókstaflega því ég þurfti að bregða mér á klósettið og þá lá hauslaus mús þar við dyrnar. Kolgríma var eitthvað að snuðra þarna eftir að ég var búin að koma líkinu út í ruslatunnu og hún er búin að biðja um það hvað eftir annað í kvöld að fá að skreppa út í skóg.
Það er víst vissara að horfa vel á það hvort hún er með bráð í kjaftinum áður en ég hleypi henni inn í hús. Hún er afskaplega ánægð með sig þar sem hún liggur hér við hliðina á mér og malar.

|

Ég vaknaði klukkan fjögur í nótt

bara til að athuga hvað klukkan væri.
Ég ætlaði sko ekki að missa aftur af spinningtímanum eins og á mánudaginn. Svo þegar ég vaknaði kl. 5.45 þá var ég ekkert rosalega upprifin. Mig langaði meira í þreksalinn en í spinning en þar sem ég var nú búin að lenda í þessari uppákomu þarna á mánudagsmorguninn, þá var víst ekki um annað að gera en að fara niður í kjallara á íþróttahúsinu og taka duglega á hjá Þórveigu. Maður verður nú að halda reisn.
Ég kíkti mörgum sinnum á klukkuna á leiðinni en ég kom á réttum tíma, fékk hjól og lagði hart að mér í tímanum. Enda er ég eins og nýsleginn túskildingur.
Kolgríma notaði tækifærið og fékk sér morgungöngu upp úr kl. 6, áður en smiðir og verkmenn fylltu götuna okkar - hún er skíthrædd við alla þessa karla og hávaðann sem þeim fylgir.

|

23 október 2007

Hvar á ég heima??????

Upp hafa komið vangaveltur um nafnið á götunni minni.
Ég hef oft orðið vör við að fólk heldur að hún heiti Skógarkot, en ég hef nú leiðrétt það, því það er bara húsið mitt sem heitir Skógarkot.
Svo eru aðrar vangaveltur en það er, heitir gatan Bjarkarsel - kennd við eina björk, eða Bjarkasel - kennd við allar bjarkirnar í skóginum? Reyndar verð ég að viðurkenna að samkvæmt minni málvitund er þetta birkiskógur, þ.e. hann er vaxinn þessu lágvaxna íslenska skriðbirki ef svo má segja um okkar yndislega birki. Björk í mínum huga er beinvaxið tré.
En ég vildi auðvitað hafa það á hreinu hvar ég á heima svo ég hringdi á bæjarskrifstofuna og spurði um heimilisfangið mitt. Stúlkan tjáði mér að hún væri vön því að fólk á mínum aldri vissi sjálft hvar það býr, en það var nú bara smá grín.
Hún sagðist myndi kanna málið og hringja aftur sem og hún gerði.
Og samkvæmt skipulagsuppdrættinum þá bý ég í Bjarkaseli. Ég sem var svo ánægð með að búa í Bjarkarseli og merkti sorptunnuna mína þannig. Nú er víst bara að leiðrétta alla dreifingu á vitlausu heimilisfangi og bið ég ykkur kæru vinir og vandamenn að hafa þetta í huga þegar þið sendið mér jólakrotin.
En svo er það kostgangarinn. Hann er svo ánægður með árangurinn í kálkúrnum að hann sagði mér að ef ég kæmi honum niður í X kg fyrir jól myndi hann bjóða mér til Spánar. Nú ég var þá ekkert að tvínóna við hlutina og skellti honum bara á stífan Herbalive-kúr.
Nú er bara spurningin, fer ég til Spánar í boði Magga eður ei?

|

22 október 2007

"Glæsileg" endurkoma

Vaknaði eldspræk við vekjaraklukkuna í rauðabítið í morgun.
Dreif mig á lappir, út í bíl og brunaði niður í íþróttahús. Þar var tekið á móti mér með fagnaðarlátum, enda hef ég verið sérlegur styrktaraðili íþróttahússins sl. tvo mánuði. Þ.e.a.s. ég hef ekkert mætt þangað þrátt fyrir að hafa fjárfest í árskorti.
Steini hélt opnu fyrir mér einhverju hliði sem búið er að koma upp í afgreiðslunni og ég tríttlaði niður í kjallara í spinningtíma.
Nína var búin að segja að ég yrði að mæta snemma ef ég ætlaði að fá hjól. Hvaða vitleysa var þetta í henni, það var nóg af hjólum.
Ég greip eitt hjól og stormaði með það í átt að salnum, en viti menn, þar var spinningtíminn að enda. Stelpurnar höfðu skutlað hjólunum fram þegar kom að teygjuæfingunum.
Jæja, orð eru til alls fyrst og ég er alla vega búin að heilsa upp á spinningstelpurnar. Það gengur vonandi betur næst og ég stilli klukkuna rétt framvegis.
En svo erum við Maggi kostgangari minn í heilsuátaki. Aðaluppistaðan í fæðunni hjá okkur eru gulrætur og kálblöð.
Á rúmum mánuði höfum við lést um samtals 8 kg. Hann um sjö en ég um eitt.

|

21 október 2007

Kettir eru betri en hundar

Það segir Nína frá Ghana.
Hún ætlar að koma í heimsókn í dag í Skógarkot með bróður mínum og mágkonu, en hún er skiptinemi hjá þeim. Hún hefur alist upp við að borða hunda og ketti. En svona er þetta, sinn er siður í landi hverju og hún Nína fer nú varla að borða íslenskar kisur þótt henni finnist kettir vera lostæti. En mér kæmi ekki á óvart að hún eigi eftir að sleikja út um þegar hún sér Kolgrímu því hún er hraustleg kisa.
Allur gærdagurinn fór í fundarsetu með systkinum mínum. Við vorum að ræða um framtíð Runu og Klakks. Runar er hús á Borgarfirði eystra en Klakkur er færeyskur bátur. Þetta eru þær jarðnesku eigur hans pápa okkar sem honum voru kærastar og honum var í mun að við systkinin ættum saman eftir hans dag.
Runa verður 30 ára á næsta ári svo það verður að gera eitthvað skemmtilegt af því tilefni.
Um kvöldið fórum við öll saman út að borða með mömmu og mágkonum mínum, á Hótel Öldu á Seyðisfirði. Tígrisrækjur í mangósósu í forrétt - ógeðslega gott, besti rétturinn. Lamb með lagskiptum kartöflum og svo frönsk súkkulaðikaka með ís og kaffi.
Svo endaði þetta huggulega kvöld með tónleikum með Herði Torfa sem var frábær að vanda.
Ps. þetta er fyrsta bloggfærslan sem ég rita á glænýju, ponsulitlu Toshiba-fartölvuna mína. Þessi tölva fellur undir máltækið margur er knár þótt hann sé smár því þetta er þrælöflugur gripur sem Tölvu-Tóta tók út fyrir mig og gaf mér grænt ljós á að kaupa.

|

19 október 2007

Til hamingju Hérað

Okkar fólk stóð sig vel í Útsvari í kvöld.
Tóta klikkaði smá á þessum þýska kanslara, en það var nú eðlilegt, hún var með hugann við nýju tölvuna mína sem nú er víst bara tilbúin og bíður eftir ferð frá Hallormsstað í Egilsstaði.
Ég var hrifin af leiktilburðum Þorbjörns þegar hann lék flóðhestinn, hann á örugglega von á tilboðum frá Þjóðleikhúsinu og glæstir leiksigrar framundan hjá honum.
En ég óska Héraðsmannaliðinu til hamingju með glæsilega frammistöðu.

|

18 október 2007

Fartölva

Ég er búin að gefast upp á þessari tölvu minni.
Upphaflega var þetta fartölva í eigu Önnu Berglindar dóttur minnar. Svo gerðist tölvan forngripur og þá var mömmu gömlu gefinn gripurinn. Tölvugarmurinn er í rauninni búinn að reynast mér vel, en nú er hún eiginlega komin í öndunarvél, ef svo má segja.
Batteríið er búið að vera ónýtt frá þvi að gripurinn kom inn á heimilið og hefur tölvan þurft að vera tengd með snúru í rafmagn. Lengi vel var hægt að vera þráðlaust á netinu, en vergangan í sumar reið tölvunni að fullu svo nú er hún líka tengd símasnúru.
Svo hefur hún verið misgæf og er farin að þjást af tölvuelliglöpum. Svona eins konar tölvualtsheimer. Ég kemst inn á síður en með "error on page".
Í dag fékk ég glænýja, netta og fína Toshiba-tölvu. Hún er svo lítil og nett að ég get næstum haft hana í veskinu mínu. Hún er 1,9 kg og svo er batteríið ca 400 gr.
Tölvu-Tóta kom og hafði vélina með sér heim til að troða forritunum mínum í hana fyrir mig því það er með tölvur eins og bíla, ég hef ekki hundsvit á þeim og hef engan áhuga á að vita hvernig þessi tæki vinna vinnuna sína, bara að þau virki.

|

17 október 2007

Feit og ljót

Vaknaði með hausinn fullan af leiðinlegum hugsunum.
Sannfærð um að ég væri feitust og ljótust. Þokkalegt að vakna svona, en þetta er það sem við konur erum að kljást við. Endalausar hugsanir um útlitið.
Þegar ég vakna með svona höfuðfyllingu þá á ég auðvitað engin föt til að fara í, þau eru alveg jafn ómöguleg og ég.
En þar sem ég stóð nú framan við spegilinn, burstaði tennurnar og horfði á þessa feitu og ljótu konu, þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hef aldrei vaknað með hausinn fullan af hugsunum um að ég væri heimsk og vitlaus. Ég er ekkert að efast um vitsmunalega burði mína, hvað er ég þá að láta útlitið trufla mig.
Ég er bara bústin og ekkert ljótari en gengur og gerist. Það er bara allt í lagi með mig, ég er bara 48 ára gömul kona og ég er hraust og heilbrigð, þannig að ég ætla bara að beina huganum að því og vera þakklát.
Svo ætla ég að hafa stjörnuspána bak við eyrað, leiðin liggur sem sagt bara upp á við: Sporðdreki: Horfurnar virðast yfirþyrmandi,en þú ert í fullkominni aðstöðu til að takast á við það sem koma mun. Byrjaðu smátt og byggðu þig upp. Gríptu svo tækifærin.

|

15 október 2007

Draumur

Mig dreymdi skrýtinn draum í nótt.
Eða í morgun, ég vaknaði upp frá honum.
Mér fannst að við Soroptimistasystur vorum að halda einhverja rosalega veislu til fjáröflunar. Veislan var haldin í heimahúsi og þetta var ekki neitt smá hús, rosalega stórt og mjög mörg herbergi.
Mér fannst að ég hefði verið þreytt eftir undirbúninginn og lagði mig í einu herberginu, en eins og öll hin herbergin var það fullt af drasli, en samt fór vel um mig þar, enda var þetta allt mjúkt drasl. Ég lagði gleraugun mín frá mér og sofnaði.
Svo vakna ég og þá er veislan búin og það er verið að ganga frá. Verið er að tína saman alls konar stórar tertur og fínerí og ég var svo leið yfir að hafa ekki hjálpað til í veislunni.
Það eru allir að tala um að ég hefði gert svo mikið að mér veitti ekki af hvíldinni, en mér fannst sjálfri að ég hefði staðið mig mjög illa.
En nú upphófust vandræðin. Ég fann ekki gleraugun mín og gekk herbergi úr herbergi til að leita að þeim. Það var svo roslaga mikið drasl þarna í húsinu enda bjó þarna barnmörg fjölskylda. Það var áberandi hvað það var skemmtilega innréttað fyrir börnin og það var allt fullt af alls konar útivistarfötum, íþróttadóti og leikföngum þannig að það var greinilega mikið líf í þessu húsi.
En ég fann ekki gleraugun mín og það sem var enn verra og gerði drauminn vondan var að mér fannst að Kolgríma hefði verið með mér og ég fann hana ekki. Ég var svo leið yfir að fara án hennar því ég var svo sannfærð um að hún myndi aldrei rata heim.
Skrýtinn draumur.
Ég hef heyrt að hús tákni sálina í manni þannig að samkvæmt því á ég mikið verk óunnið fyrir höndum - ég þarf að fara að vinna virkilega mikið í sjálfri mér. Nota þessa útivistargalla sem hanga alls staðar og ónotuðu íþóttafötin.

|

13 október 2007

Laugardagur í Selskógi

Veðrið er yndislegt í dag.
Við Nína erum búnar að fá okkur gönguferð í skóginum og fundum stíg sem liggur akkúrat inn í mína götu. Það er nú samt á skipulagsuppdrættinum manngerður göngustígur, þessi sem við fundum var bara náttúrulegur, gömul kindagata eða eitthvað í þeim dúr.
Afrek dagsins er hins vegar að ég er búin að koma upp gardínum fyrir báða stofugluggana, en ég var búin að vera strand í heilan mánuð með seinni gluggann.
Það er ekki fyrir fólk með skerta starfsorku að kaupa þetta dót frá IKEA. Ég er bara þokkalega hraust ennþá en ég er samt krambúleruð eftir þessi slagsmál við umbúðirnar utan um gardínurnar. Þetta minnir á allar þessar nýmóðins öryggislæsingar og -lok, ég keypti spreybrúsa um daginn og hann var svo barnaöruggur að það var ekki fyrr en eftir mikið bölv og mikið puð sem mér, miðaldra konunni,tókst að opna hann.Þá var ég líka búin að gleyma til hvers ég keypti spreyið. Jú alveg rétt, ég þrufti að laga IKEA náttborðið sem ég braut pínulítið þegar ég var að setja það saman.
Eftir allt þetta vesen með IKEA umbúðir undanfarið hef ég ákveðið að sækja um hjá IKEA við að hanna og framleiða umbúðir. Þær verða áfram svona leiðinlegar eins og þær eru í dag og maður þarf eftir sem áður sveðjur og klaufhamra til að ná varningnum úr pökkunum. En nýjungarnar verða að auk þess sem hinn klassíski sexkantur fylgir, þá ætla ég að láta eftirfarandi fylgja: Tvær róandi töflur, 4 verkjatöflur, plástur og áfallahjálp. Svo í neyðartilfellum verður hægt að fá tékknesku klaufabárðana til aðstoðar ef kaupandinn ræður alls ekki við að ná dótinu úr pakkanum eða að setja það saman.

|

12 október 2007

Plómur

Einu sinni fyrir langa, langa löngu var ég lítil stelpa.
Þá átti ég heima í Kópavoginum og það er svo langt síðan saga þessi gerðist að það var ekki einu sinni komin sundlaug í Kópavogi. Þessi sundlaug okkar sem svo komst upp úr jörðu og í dag yrði skilgreind sem fjörurra manna baðkar. En hvað um það, fyrir daga Kópavogslaugarinnar vorum við systur sendar á sundnámskeið í Austurbæjarskólann, í enn minni sundlaug en þá var á teikniborðinu í Kópavoginum.
Við tókum Hafnarfjarðarstrætó sem stoppaði við Derry Queen sjoppuna á Kópavogshálsinum, fórum út við gamla Kennó og löbbuðum svo eftir Barónsstígnum að Austurbæjarskólanum þar sem sundkennslan fór fram.
Við höfðum með okkur aura í strætó, það var ekki búið að finna upp strætómiðana, og svo fengum við alltaf ofurlítið aukaskotsilfur sem dugði til þess að við gátum hvor um sig keypt eina plómu í verslun sem var þarna á horni Barónsstígs og einhverrar þvergötu, mig minnir að búðin hafi heitið Árnes.
Það var mikil spenna að vita hvort til væru plómur og það var unaður að gæða sér á þessum undraávexti. Ef svo illa vildi til að það voru ekki til plómur voru keypt tvö Bazogatyggjó. Eitt handa mér og eitt handa Önnu Guðnýju.
Það voru alltaf vonbrigði ef ekki voru til plómur og einhvern veginn hefur mér aldrei fundist nein búð selja góðar plómur nema þessi búð sem fyrir margt löngu var í kjallara þarna skammt frá Austurbæjarskólanum.
Ég veit ekki hvað ég hef borðað margar plómur um ævina og látið mig dreyma um að einn daginn ætti ég eftir að rekast á eins unaðslega góða plómu sem þessar draumkenndu plómur bernskunnar.
Og viti menn, sumir draumar rætast. Núna í haust hafa fengist í Bónus plómur sem ég er viss um að koma af sama tré og plómurnar forðum.
Þvílíkur unaður og munaður.

|

11 október 2007

Nóbel og Steini

Voðalega er ég kát yfir Nóbelsverðlaununum í bókmenntum.
Raungreinaveitingarnar fara alltaf inn um annað og út um hitt hjá mér. Ég hlusta bara eftir friðarverðlaununum og bókmenntaverðlaununum.
Doris Lessing er afskaplega vel að þessum verðlaunum komin, en það hefði nú reyndar mátt veita henni þau fyrr. En samt gott að Nóbel rankaði við sér því betra er seint en aldrei.
Að öðru. Í morgun fór ég í Húsasmiðjuna til að kaupa mér 4 skrúfur. Ég lét plata mig til að kaupa 8 skrúfjárn í leiðinni - allar gerðir af skrúfjárnum sem ein kona getur mögulega haft not fyrir í lífinu.
Svo hringdi ég í Steina Óla og sagði honum að heima hjá mér væri borvél, mig vantaði bara karlmann á endann á henni. Ekkert mál, hann kemur til mín um helgina. Svona eru frændur mínir af Steinsættinni yndislegir.

|

10 október 2007

Minningargarður poppara

Nú hefur Viðey loks öðlast hlutverk.
John Lennon kominn með sína bláu friðarsúlu - en af hverju bláa? er það ekki litur auðvaldsins sem hann barðist gegn? Er ekki hvítt litur friðarins?
Jæja, það má eflaust lesa ýmis tákn út úr þessari súlu, en hvað um það.
Kirkjugarðar heimsins eru fullir af dauðum poppurum sem geta núna fengið minningarverk um sig í Viðey, Elvis, Freddy Queen-gaur, Frank Zappa, já að ógleymdum Jim Morrison.
Kannski fá einhverjir íslenskir líka smá verk norðan megin í eyjunni.
Þetta er allt voða fínt og dúddí þó ég nái ekkert upp í þetta fínerí allt saman. En ég var bara að spá í diskókynslóðina og pönkkynslóðina.

|

08 október 2007

Krem

Hvernig rötuðu öll þessi krem inn í líf mitt?
Ég var að stíga upp úr kvöldfreyðibaðinu og fálmaði eftir næturkreminu mínu inn í baðskáp. Kreminu sem kona á mínum aldri þarf að bera á andlit sitt fyrir svefninn svo hún vakni ekki gömul og skorpin kona.
Svo í fyrramálið þegar ég fer á fætur og er búin að fá morgunþvottinn þá ber ég á mig dagkrem sem hver kona á mínum aldri þarf að bera á andlit sitt svo húðin þoli allt álagið og alla streituna og verði ekki komin með öll merki hrörnunar þegar næturkreminu er skellt í andlitið.
Andlitskrem, augnkrem, handáburður og body-lotion. Allt ómissandi í lífi miðaldra konu, svo ekki sé talað um fótakremin öll. Já og tannkremin en þau eru annars eðlis.
Ég fór að telja kremkrukkurnar, -dósirnar og -túpurnar. Þetta eru hátt í 30 ílát fyrir utan fótakremin sem eru hátt í 10 túpur.
Er ekki í lagi með mig? Og ilmvötnin, maður minn. Segi ekki hvað þau eru mörg, en þrjú þeirra eru óopnuð.
Ég er búin að setja sjálfa mig í viðskiptabann hvað kremvarning varðar.
Ég man þá daga þegar ég þóttist bara vel sett ef ég átti eina dós eða túpu af handáburði á baðherberginu. Hvað gerðist eiginlega?
Ég skora á ykkur stelpur að fara inn á bað og telja hvað þið eigið margar gerðir af kremum og öðrum ómissandi áburði, ég trúi því ekki að ég sé eina konan sem sit í kremsúpunni.

|

07 október 2007

Við prinsessurnar...

... í Skógarkoti erum afskaplega ánægðar með daginn.
Ég er nýböðuð og komin í hlý og góð náttföt, en Kolgríma kúrir á borðstofustól og malar. Afar ljúft lífið hér í skóginum.
Það hefur ekki verið skýhnoðri á himni í dag og Kolgríma hætti sér út aðaldyramegin enda er sunnudagur og öll vinna í götunni hefur legið niðri. Það hefur ekki verið hávaði frá vinnuvélum, hamarshögg eða ókunnir karlar á vappi. Kolgríma var því bara nokkuð örugg með sig á dyrahellunni þar sem sólin skein á hana.
Hún er aðeins farin að vilja vera úti, en ekki mikið og hún vill helst alltaf ganga um sömu dyrnar, þ.e.a.s. garðdyrnar sem snúa til suðurs. Þó Skógarkot sé ekki stórt hús þá eru þrennar dyr inn í íbúðina og tvær leiðir inn í bílskúrinn. Kisa hefur því um marga möguleika að velja en kann best við þessar garðdyr. Á Reynivöllunum fannst henni líka þægilegt að ganga um garðdyrnar. Garðdyrnar hér eru samt betri að því leyti að glerið er glært en á Reynivöllunum var það þykkt, litað og mynstrað þannig að það sást illa inn um það. Nú stendur kisa bara á pallinum og mænir inn í von um að ég sjái hana og hleypi henni inn.
En það var ekki bara Kolgríma sem fór út að viðra sig. Ég fór í einn lítinn hjólatúr og einn góðan göngutúr. Í göngutúrnum í morgun kom ég við hjá Þórhalli og Guðlaugu á Faxatröðinni. Þau voru á kafi í sláturgerð. Ég uppskar kvöldmatarboð og núna er ég úttroðin af nýrri lifrapylsu og nýju grænmeti.
Slátur er algert nammi,namm. Ég held ég gæti bara haft slátur á jólunum svei mér þá. Heit lifrarpylsa og ris alamand. Fullkomið. Minnir mig á að ég á hrútaberjasaft sem hrútaberjameistari bæjarins færði mér um daginn, ég ætla sko að geyma þessa saft til að hafa hana út á jólagrautinn.

|

05 október 2007

Gröm og glöð

Mér líður hálf furðulega.
Ég er frekar pirruð út í Kolgrímu, satt að segja hundfúl út í hana. Það hefur hvarfla að mér að gefa Rauða krossinum hana og sjá hvor þeir geti ekki gert sér mat úr henni. Ég man ekki eftir neinum öðrum góðgerðarsamtökum sem safna dóti.
Hvað haldið þið að henni hafi dottið í hug? Hún nagaði aftur í sundur leiðsluna að bassahátalaranum í fínu græjunum mínum.
Jæja, en gremjan er að fjara út og þessi elska liggur á borðstofustól og skammast sín ekki vitundar ögn. Hún veit sem er að mér þykir voðalega notalegt þegar ég fer að sofa og hún kemur og malar fyrir mig.
En svo er ég afskaplega kát og stolt af sjálfri mér því ég er búin að setja saman annað náttborðið sem ég pantaði úr IKEA fyrir mánuði síðan en var að fá núna í vikunni.
Það er í sjálfu sér ekkert stórvirki að setja saman IKEA dót, það fylgir yfirleitt sexkantur og leiðbeiningablað. En þetta er ekki alveg svo einfalt, það er enginn sexkantur, heldur bara mynd af þremur áhöldum sem nota þarf til verksins. Ég bý svo vel að eiga einmitt þessi tæki, hamar, stjörnukrúfjárn og venjulegt skrúfjárn.
Með einu náttborði eru hátt í 100 skrúfuættaðra hluta. 20 stk. einhverjar innanskrúfur. Og viti menn, ég sjálf, Rannveig Árnadóttir, gat sett þetta saman ein og hjálparlaust. Húrra fyrir mér.

|

03 október 2007

Spergill og snúður

öðru nafni Anna Berglind, á afmæli í dag.
Hún er 22 ára - til hamingju með daginn vinkona.
Svo eiga líka bróðurdætur mínar, systurnar Margrét Herdís og Kristín Halldóra afmæli og litli afastrákurinn hans Magga - hamingjuóskir til ykkar allra.
Kolgríma hefur verið að kanna umhverfið af mikilli varkárni undanfarið. Hún fór í könnunarleiðangur fram í bílskúr í morgun, ég hélt að hún myndi þá verja deginum þar því þar er margt að skoða, hellingur af kössum og dóti. En þessi könnunarleiðangur tók bara 15 mínútur.
Hún hefur aðeins brugðið sér út um garðdyrnar en ekki farið út fyrir lóðamörkin. Hún vill ekki fara út um aðaldyrnar því það er allt fullt af ókunnum körlum úti á götu og miklar framkvæmdir í gangi hér í næstu húsum.
En í dag hefur veðrið verið með eindæmum gott og falleg hér á Egilsstöðum og Kolgríma brá sér út í hádeginu. Hún lét sér ekki duga að vera á landareigninni okkar heldur hvarf hér eitthvað niður í skóg. Ég varð bara að fara aftur í vinnuna þó kisa væri farin að heiman. Ég hringi á Faxatröðina til að láta þau vita að kisa væri vís að koma í heimsókn til þeirra.
En þegar ég kom heim úr vinnunni þá stóð þessi elska grenjandi úti á palli. Mikið varð ég fegin.
En eitt undarlegt hefur verið að gerast í dag. Í hádeginu hitti ég einhvern mann sem ég hef aldrei áður séð, hann spurði hvort svarta ryksugan væri hjá mér. Síðan hringir Bjössi smiður og spyr hvor svarta ryksugan sé hjá mér og þegar ég var komin heim úr vinnunni þá er hringt á dyrabjöllunni og úti stóð einn af smiðunum og spurði hvort svarta ryksugan væri hjá mér.
Ryksugan mín er RAUÐ og þá vitið þið það allir karlar á Egilsstöðum, hættið að spyrja mig um þessa svörtu ryksugu.

|

02 október 2007

Við Kolgríma

erum báðar áhættufíklar.
Ég versla í IKEA en kisa nagar rafmagnssnúrur.
Í dag fékk ég sms frá IKEA um að bókaskáparnir væru komnir svo ég gæti haldið áfram að panta inn í púslið mitt, bókaskápar með glerhurðum.
Ég hringdi og bað um samband við þjónustufulltrúa. Fékk samband eftir 20 mínútna bið og sannfærðist um að IKEA væri aðal styrktaraðili Símans.
Þjónustufulltrúinn var ótrúlega glaðleg kona, svona ef maður lítur til þess að það hlýtur að vera mjög taugatrekkjandi að vera þjónustufulltrúi hjá IKEA. Hún þekkti mig, enda er ég búin að hringja svo oft og það geta varla verið nema tveir þjónustufulltrúar hjá fyrirtækinu miðað við þjónustuna, þessi glaðlega og svo þessi Guðrún sem hringdi til mín um daginn til að segja mér að bókaskáparnir sem skuldfærðir höfðu verið á vísakortið mitt væru uppseldir.
Jæja, þetta fer að taka enda og ég get gleymt símanúmerinu hjá IKEA því ég legg ekki í þessa verslun á næstunni.
Um daginn keyti ég voða fínt Sony-heimabíó. Kolgríma var líka mjög hrifin af tækjunum og nagaði í sundur leiðsluna í bassahátalarann.
Maggi lánaði mér einhver forláta heyrnatæki svo ég gæti hlustað á tölvun mína. Í dag uppgötvaði ég að hún Kolgríma var búin að naga þau í sundur. Sama gerði hún við rándýr skype-tól sem Anna systir átti.
Ég fer að hætta að hafa efni á að eiga þessa elsku.
En svona að lokum. Vitið þið um búð á Austurlandi eða á Akureyri sem seldur stórar glaðlegar gólfmottur eins og fást í IKEA?

|

01 október 2007

Lognið í skóginum ...

... er mikið á ferðinni.
Í kvöld alla vega. Á Reynivöllunum bærðist aldrei hár á höfði, þó svo að það væri brjálað veður á öllu Austurlandi. Það er meiri vindur hér í skóginum, það hefur alla vega tvisvar verið vindur hér síðan ég flutti.
En það gengur illa hjá mér að fá afgreitt það sem ég hef pantað mér úr IKEA. Ég var hálfnuð að festa upp gardínur fyrir heilum mánuði síðan þegar ég uppgötvaði að mig vantaði festingu til að geta sett upp brautina við annan stofugluggann.
Nú, ég hafði símasamband við IKEA því netverslunin þeirra er alveg ótrúlega flókin. Öll pöntunin var auðvitað skuldfærð á vísakortið mitt. Það kom einn hlutur af þessum 10 sem ég pantaði, en ekki gardínufestingin.
Pantaði aftur fyrir rúmri viku og aftur var skuldfært og síðan hefur ekkert til sendingarinnar spurst.
En það er góður vilji að endurgreiða mér þær vörur sem ég ekki fæ.
Ég er svo mikil bjartsýniskona að ég hringdi aftur og pantaði mér bókaskápa með glerhurðum og þetta var skuldfært á vísakortið. Það uppgötvaðist ekki fyrr en sendingin var að fara af stað að skáparnir voru ekki til, en hurðarnar voru til svo þær voru sendar af stað.
Nú vantar mig bara skápa til að festa hurðarnar á og leiðréttingu á þessari vísaskuldfærslu. Ja, nema að IKEA fái aftur þessa skápa og sendi mér þá. Vonandi verð ég þá ekki búin að týna eða brjóta hurðarnar.
Spurning hvort ég fari ekki bara að gefast upp á að panta frá IKEA og haldi mig bara við minn Rúmfatalager.
Það er annars ekkert svo mikill vindur í skóginum, það hvín bara í hálfuppsettum skorsteininum.

|

Mánudagur

Það er rigning úti og frekar hráslagalegt.
Ég er hálf mygluð í dag og þjáist af alvarlegu tilfelli af frestunaráráttu. Ég er með langan syndalista og mér gengur hægt að vinna úr honum.
Kolgríma er að leggja undir sig Skógarkotið. Ég var að reyna að ná athygli hennar í morgun þar sem hún lá á borðstofustól og lét fara vel um sig. Hún ansaði mér ekki.
Ég fór inn í herbergi og lokaði að mér. Þegar ég kom fram aftur stóð Kolgríma framan við dyrnar og sendi mér illt augnaráð. Hún vill ekki láta skilja sig útundan.
Jæja, best að spíta í lófana, bíta á jaxlinn og ráðsta á verkefni dagsins.
Góðar stundir.

|