31 október 2005

Benzi

Hvað lætur maður ekki hafa sig út í.
Nú er ég búin að láta telja mér trú um að Benzi minn muni aldrei læra að aka í snjó og hálku, fyrst hann er ekki enn búinn að læra það orðinn 15 ára gamall.
Ég er búin að vera að reyna að kenna honum það sl. þrjá vetur og honum hefur nú svo sem gengið ágætlega á köflum, stundum sýnt smá framför meira að segja. Ég skal viðurkenna að við förum aldrei út fyrir bæinn frá því að fyrstu snjókorn falla og þar til snjóa leysir á vorin en hann hefur bara staðið sig vel innanbæjar greyið litla. Liggur vel á vegi og er þægilegur í akstri. Við erum nú búin að fara saman tvo hringi um landið, fyrst norðurleiðina í fyrra og svo suðurleiðina í sumar. Hann Benzi minn er sérstaklega þægilegur ferðafélagi á langferðum.
En svona er nú lífið og veturinn gengur óvenju snemma í garð, svo nú er ég farin að horfa eftir 4x4 bíl sem getur flutt mig um nærsveitir og yfir fjallvegi allan ársins hring. Ég var hálftíma að koma Benza mínum úr hlaðinu í gær í fingurdjúpum snjónum.
Það er líka spurning hvort það sé ekki bara gott fyrir hann Benza að leggjast í vetrardvala og fá svo að koma aftur á götuna með vorinu. Það myndi henta okkur báðum.
En það er nú ekki sopið kálið þótt maður ákveði að finna annan bíl. Það er ljóta flækjan þessar bílasölur. Ég bara skil ekki hvernig menn nenna að skipta um bíl á hverju ári og jafnvel oft á ári. Ég myndi fara yfirum ef ég þyrfti að standa í því. Það ægir þarna saman alls konar drasli og ekki nokkur leið að henda reiður á hvað er í boði.
Það væri lágmark að reyna að raða bílnum eftir einhverju skipulagi á planið, maður fengi betri yfirsýn yfir framboðið ef þeim væri t.d. raðað eftir lit. Mig langar t.d. ekki í bíl í tilteknum litum og þá þyrfti ég ekkert að eyða tíma í að horfa á þann hluta af planinu. Ég vil helst hvítan eða svartan bíl, dökkblár eða dökkrauður koma líka til greina.
Það er ekki spurning að það á að raða bílum eftir lit.

|