09 október 2005

Vetur

Það er kominn vetur.
Jörðin er alhvít og greinar trjánna svigna undan blautum snjónum.
Þegar ég opnaði út í garð í morgun tók Kolgríma undir sig stökk og dreif sig út. Hún snarstansaði í ökladjúpum snjónum og horfði í forundran út í garðinn sem í gær var grænn og þakinn laufum en er nú alhvítur. Hún nusaði af snjónum, ýtti honum til og það mynduðust litlar snjókúlur undir loppum hennar. Snjóflyksurnar festust við feldinn hennar og hún reyndi að hrista þær af sér, tipplaði lítinn hring á pallinum og settist loks undir einn garðstólinn. Fór síðan aftur inn og kom sér fyrir í gluggakistunni í stofunni og lét sér nægja að skoða þennan nýja heim út um gluggann.

Nína hélt innflutningsgleði í nýju íbúðinni sinni í gærkvöldi. Þetta var vel lukkað samkvæmi, menn komu alls staðar að af landinu og allir skemmtu sér vel. Það voru þarna hljóðfæraleikarar, Dætur Satans og mér skilst að þeir hafi leikið í beinni í Popplandi í gær. Þeir upphófu hljóðfæraslátt og söng og sungu m.a. lag og texta sem var sérstaklega saminn um Nínu. Síðan var ljóðalestur en engin ræðuhöld.

Speki dagsins: Maður er manns gaman.

|