16 nóvember 2005

Bloggfrí

Tek mér nokkra daga frí frá blogginu.
Við mæðgur erum að fara að leggja af stað til Kaupmannahafnar svo það verður nú ekki verið að blogga næstu dagana.
Allir svokallaðir vinir mínir hér á Héraði eru að fara eitthvað að heiman um helgina - hvort sem það er sannleikanum samkvæmt eða átylla til að losna við að passa kisu fyrir mig. Endaði með að fá öryggiseftirlitsmann ofan af Kárahnjúkum til að koma til byggða og passa kisu fyrir mig.
Meðan ég verð í Köben að gæða mér á kakói og rjómavöfflum, spóka mig á Strikinu með dætrum mínum, skoða jóladýrðina í Tívolí og fer hamförum í magasínunum, þá getið þið bakað súkkulaðiköku.
Hér er sem sagt uppskriftin að Góðu nágrannakökunni sem ég minntist á í upphafi bloggferils míns. Þessa köku bakaði hann Bjarni granni minn handa okkur mæðgum þegar við komum heim um verslunarmannahelgina 2004 og skildi eftir í kassa við útidyrnar. Þegar ég opnaði kassann gaus upp þessi líka eðalfína súkkulaðilykt.
En hér er uppskriftin, eins og ég fékk hana hjá Bjarna. Verði ykkur að góðu.

Botn
2 dl sykur
200 gr smjör
200 gr súkkulaði
1 dl hveiti
4 stk egg

Þeyta saman egg og sykur, bræða saman smjör og súkkulaði
Blanda hveiti við egg og sykur, bæta súkkulaði og smjöri þetta verður samt allt að gerast á rólegu nótunum.
Baka við 170° í 30-35 mín

Súkkulaði
150 gr súkkulaði
70 gr smjör
2 msk síróp

Bræða saman súkkulaði og smjör við lágan hita og hugsa eitthvað fallegt á meðan þessi kaka á að vera með sál.
Bæta svo sírópi við.

Það kemur reyndar ekki fram hér í uppskriftinni en það á að hella súkkulaðinu yfir kökuna!!!!!

|