29 nóvember 2005

Framkvæmdaleysi

Er haldin illkynja frestunaráráttu.
Samt er mesta furða hverju ég hef komið í verk í dag svona ef ég rifja það upp í huganum. Hef mig ekki í að byrja á neinu merkilegu. Ja, nema ég er búin að sníða mér nýjar jólagardínur í eldhúsið - þessar gömlu eru svo sem ágætar en allt í lagi að breyta til á 20 ára fresti.
Nágrannar mínir eru farnir að minna mig á að það sé kominn tími til að koma upp jólaljósunum. Ég er nú svo heppinn að það flutti maður í götuna í haust og hann hefur ekki enn fattað í hvers konar götu hann býr svo það er eitt annað hús í götunni, fyrir utan mitt, þar sem ekki er komið upp svo mikið sem eitt jólaljós. Ég er samt búin að hugsa út hvaða jólaseríu ég hengi á hvern stað, hvaða sería fer í þakskeggið, hvaða sería fer í tréið o.s.frv. Nenni bara ekki að príla upp á þak í þessari vetrarhörku, ég gæti frosið föst við strompinn.
Á morgun, 30. nóvember, finnst mér vel við hæfi að kveikja fyrstu jólaljósin, þessi sem ég get verið innandyra við að festa upp - inniseríur, stjörnur og aðventuljós.
Góður dagur til að hleypa ljósi inn í lífið.

|