10 janúar 2006

Blogg, blogg, blogg

Í fréttum er þetta helst.
Lífið hjá okkur Kolgrímu gengur ljómandi vel og er svona að komast í eðlilegt horf.
Það upphófst hjá okkur valdabarátta um hvor okkar ætti að hafa besta staðinn í rúminu og þar sem sá vægir sem vitið hefur meira þá flutti Kolgríma sig yfir í gestaherbergið með tvíbreiða rúminu. Þar hefur hún það afskaplega huggulegt ofan á bútasaumsteppi með allar gestasængurnar undir sér. Síðla nætur, eða þegar hún heldur að ég sé örugglega steinsofandi, á hún það til að koma og hlamma sér ofan á mig og sofa þar til morguns, þ.e.a.s. svo framarlega sem ég hreyfi mig ekki mikið.
Ég hef hræðilegt samviskubit gagnvart kisu því á fimmtudaginn fer hún upp á dýraspítala í ófrjósemisaðgerð. En svona er lífið, ég vil ekki fylla húsið af kettlingum og ég get ekki hugsað mér að standa í að vera alltaf að losa mig við svoleiðis kríli.
Ég fór í leikhús að Iðavöllum að sjá Sex í sveit - það var ótrúlega skemmtilegt og leikararnir frábærir - takk fyrir góða skemmtun.
Ég skrapp norður að Mývatni í gær og skellti mér í jarðböðin seint í gærkvöldi. Það var auðvitað ljúft, nema að vatnið var svolítið misheitt - þegar það var heitt og notalegt við yfirborðið þá var frekar svalt á táslunum. Svo kom þjónn með tvo bakka af bjórglösum handa hópnum sem ég var með, en við sem ekki vildum bjór fengum ekki neitt - svona er óréttlæti heimsins.
Þegar ég kom úr Mývatnsleiðangrinum í dag var hellingur af pósti sem beið mín, m.a. pakki sem í voru 4 doðrantar handa mér að lesa í bókmenntasögukúrsinum sem ég er að byrja í. Þetta er spennandi kúrs, en mér féllust eiginlega hendur þegar ég sá allt þetta lesefni. Svo er ég skráð í annan kúrs - goðsögur, hetjur og dulúð - þar verður endalaust lesið úr Eddukvæðum. Ég efast um að ég höndli þetta allt - en það kemur í ljós.
Næsta mánudag byrja ég aftur að lesa á spítalanum. Ég ætla að lesa Guðrúnu frá Lundi. Dúrra á bókasafninu ráðlagði mér eindregið að lesa hana og sagði að bækur Guðrúnar ættu að vera skyldulesning í öllum menntaskólum. Ég hálf sammaðist mín fyrir að hafa aldrei lesið stafkrók eftir Guðrúnu, en nú stendur það til bóta.
Framundan eru tvö þorrablót, fyrst á Egilsstöðum og svo í minni gömlu heimasveit á Völlum þannig að það er svo mikið meira en nóg framundan hjá mér.
Nenni ekki að þreyta ykkur meira á öllu sem ég er að gera eða að fara að gera eða er að hugsa um að gera eða hætti e.t.v. við að gera.
Vona að þetta svali lesþörf þinni Tóta mín.

|