15 janúar 2006

Lífið er leikur

- alla vega hjá okkur Kolgrímu.
Mér varð það á að missa vínber í gólfið og það var ekki að sjá að það væri sundurskorinn köttur sem greip það og brá sér á leik. Hún var eins og færasti fótboltakappi og ef ég hefði eitthvað vit á fótbolta gæti ég lýst fimlegum tilburðum hennar með fagorðum, en ég hef aldrei skilið það sem fram fer á fótboltavelli - síst af öllu þegar karlarnir fara að faðmast og kyssast í einni hrúgu - svo ég verð að sleppa nákvæmum lýsingum.
Ég þurfti að skreppa upp í vinnu - já, ég er að vinna þótt að sé sunnudagur. Nema hvað, í götunni minni er allt á kafi í snjó, alveg upp á miðjar hliðar á Súbbanum. Nú eins og segir í æviminningum Stefáns í Flögu þá er Súbarú góður bíll, svo ég lét bara vaða og sýndi ótrúlega hæfileika í snjókrossakstri. Komst alla leið upp í vinnu, rúnt um bæinn og heim aftur. Mig langar eiginlega mest að fara út aftur og finna mér dýpri snjó til að æfa vetrarakstur í.

|