14 janúar 2006

Rafmagnsleysi

Dauði og djöfull.
Hvaða bévítans deli og dóni tók rafmagnið af á Egilsstöðum um hádegi í dag? Ég hef ekki hugsað fallega til hans. Ég sem var búin að vélrita margar blaðsíður og svo bara - púff - allt farið. Ekkert öryggisafrit, klukkutíma vinna ekki til neins. Og ég sem er að reyna að afla tekna til að eiga fyrir jóla-visakortareikningnum.
Annars hef ég svo sem séð það svartara í rafmagnsleysi - þá var ég í krabbameinsskoðun með eldgamlan lækni frá Norðfirði milli fóta mér, en förum ekki nánar út í það. Sú saga er ekki við hæfi barna.
Kisa mín fór að mala í gær. Mikið varð ég glöð að heyra að kvörnin var í lagi. Hún hefur malað heil ósköp fyrir mig bæði í gærkvöldi og svo í dag. Hún Kolgríma mín er alger engill. Svo er hún farin að borða eins og almennilegur köttur. Hún er samt enn hálf þróttlaus.
Fattaði í morgun þegar ég var að skoða á henni mallann að ég veit ekkert hvenær á að taka þennan rúllupylsusaum úr henni. Hún kemur til með að fá ljótt ör, eins gott að það hverfur inn í hárin sem vonandi vaxa aftur á mallakútinn hennar.
Nú fer klukkan að verða fimm og ég ætla að skunda út í skóla og kaupa nokkra miða á þorrablót Egilsstaðamanna. Það jafnast ekkert á við gott þorrablót. Ég á samt ekki von á að Egilsstaðablótið komist í hálfkvist við Vallablótið, það eru sko blót í lagi - alla vega ef vel tekst til. Jæja, þetta er kannski ekki fallega sagt, en það er alla vega annar stíll á sveitblótunum.

|