31 maí 2006

Óhapp???

Hvað er lögbrot og hvað er óhapp?
Ég sá haft eftir Eyþóri Arnalds á einhverjum netmiðli að hann hafi orðið fyrir óhappi rétt fyrir sveitastjórnarkosningarnar, þegar hann var tekinn fyrir ölvunarakstur.
Þetta hlýtur að vera rangt eftir honum haft. Það fer varla nokkur ábyrgur stjórnmálamaður að kalla ölvunarakstur óhapp.
Það má líka spyrja sig hvar í atburðarásinni óhappið átti sér stað. Var það að hann skyldi neyta áfengis, var það að hann settist fullur undir stýri, var það að hann keyrði á ljósastaurinn eða var óhappið e.t.v. að löggan skyldi stoppa hann?
Ég er líka að velta fyrir mér hvort hér sé um breytta málnotkun að ræða. Má kannski framvegis heyra fulltrúa ákæruvaldsins spyrja ákærða hvort hann eigi þátt í óhappi því sem í ákæru sé lýst og varði við 244. gr. alm. hgl.?
Þetta er obbolítið farið að minna á Kardimommubæinn.

|