Heimkoma
Þá er ég komin heim og lífið farið að ganga sinn vana gang.
Þetta var bara hin mesta ævintýraferð og ég lenti í atvikum sem ég hef ekki fyrr lent í á ferðalögum.
Það eru 33 ár síðan ég fór í fyrsta sinn út fyrir landsteinana. Ég veit ekki hvað ég hef oft gengið fram hjá tollvörðum og ég hef aldrei verið spurð að einu eða neinu. Ég hlýt að hafa verið svona sakleysisleg á svipinn. Nema hvað þegar ég kom til landsins og hitti tollverðina þá var ég beðin að sýna hvað ég væri með í pokunum sem ég var með og töskurnar voru gegnumlýstar. Ég er greinilega komin með einhvern harðneskjulegan krimmasvip.
Kettirnir gengu ótrúlega vel um húsið meðan ég var í burtu. Garpur hafði að vísu sporað svolítið hér og þar. Kolgríma sporar ekki svona, hún er líka mun snyrtilegri þegar hún fer á klósettið. Garpur hefur ekki enn lært nógu mikið í hreinlætisfræðum þessi elska.
Kettirnir skiptust á að hnoðast utan í mér í nótt og mala fyrir mig. Greinilega fegnir að fá ráðskonuna sína heim aftur og aukna heimilisþjónustu.
Annars gekk kattapössunin hjá Elvu og fjölskyldu bara vel þar til daginn áður en ég kom, þá sluppu kettirnir út og Elva var ekki viss um hvort guli kötturinn sem hún náði og setti inn væri Garpur eða ekki Garpur svo það var svolítil spenna í loftinu þegar ég kom heim hvort réttir kettir væru í húsinu eða ekki.