17 febrúar 2007

Gamall skítur

Það er margt undarlegt í kýrhausnum.
Nú heyrir maður að Jónína nokkur Ben sé farin að bjóða Íslendingum upp á sérstakar heilsuferðir til Póllands og að aðal tilgangur ferðarinnar og helsta skemmtun þáttakenda sé að ganga örna sinna í því fróma landi.
Ég hef lengi látið mig dreyma um að komast til Póllands og skoða m.a. Warsjá, fallega þjóðgarða, heimsækja Kraká, en ekki hef ég neitt sérstaklega verið að hugleiða að fara þangað til að ganga örna minna, það get ég svo vel gert hér heima. Vonandi kemst ég samt einhvern tíma til Póllands og stoppa svo lengi að ég þurfi að sinna þessu kalli náttúrunnar þar.
En það ku víst vera þannig að í þörmum okkar safnist fyrir margra ára byrgðir af skít sem þurfi að gera alveg sérstakar ráðstafanir til að losna við og það sé hægt að gera það í Póllandi.
En það er annars konar skítur sem mér finnst ekki síður hvimleiður, en það er fortíðarskítur sem safnast stundum fyrir í höfðinu á fólki. Þá festast menn í leiðinlegum tímabilum eða atburðum fortíðarinnar og geta varla litið glaðan dag því þeir eru fastir í skítinum.
Kannski að Jónína eigi eftir að finna út hvernig hægt er að losna undan því að sitja föst í fortíðinni og geti þá kennt okkur að hreinsa til í hugarfylgsnum okkar.

|