25 apríl 2007

Gína

Ég er búin að finna nokkur leikföng frá því að ég var lítil.
Ekki það að hún Gína mín hefur aldrei verið týnd, en það er rauðhærð dúkka sem ég hef átt svo lengi sem ég man eftir. Hún þvældist með mér um allt þegar ég var krakki. Þó ég væri nú meira fyrir ævintýralega leiki með strákunum, sulla í drullupollunum í Kópavoginum, kanna nýbyggingar og fleira í þeim dúr, þá var það alltaf þannig að á sumrin breyttust leikirnir. Á sumrin fór maður af mölinni.
Við systur fórum með foreldrum okkar í sumarbústað fjölskyldunnar upp við Elliðavatn og þá var maður náttúrulega bara úti að leika sér alla daga, úti í móa eða að sigla á vatninu, en Gína fékk samt að vera með í sumarbústaðnum. Það má reyndar geta þess að þetta áður en búið var að uppgötva að lífið er stórhætturlegt og við sigldum björgunarvestislaus á bátnum fram og til baka á vatninu. Svo fór ég í sveitina austur á Borgarfjörð og þangað fór blessunin hún Gína ekki með mér.
Svo var alltaf einhver partur á hverju sumri sem fór í hálendisferðir með pabba, mömmu og Önnu systur og þá var nú svo sem ekki við neitt að vera nema að leika með Gínu, svo hún er búin að ferðast upp um fjöll og firnindi á Íslandi, enda sér á henni, t.d. augun svolítið skökk.
Ég hefði kannski frekar átt að láta dúkkuna heita Höllu af því að hún var svo mikið á fjöllum, en ég lét hana bara heita í höfuðið á mömmu.

|