03 júlí 2007

Fiskur og rigning

Þá hefur nú sumarblíðan tekið sér smá frí.
Ég var að skoða veðurspánna og veðurútlitið er satt að segja ekki upp á marga fiska næsta laugardag.
Næsta laugardags hefur víða verið beðið með eftirvæntingu, 07.07.07, en þá ætlar hálf þjóðin að ganga í hjónaband. Allir presta þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga eru yfirbókaðir. Húsráðendur á Fjósakambi 12 fara þvert yfir landið og mæta í brúðkaup í Grindavík, en ég er svo mikill heimalingur, ég fer í Vallaneskirkju og verð viðstödd brúðkaup þar - í minni heimabyggð.
Skv. spánni verðu rigning og skítakuldi um allt land, kannski helst að sjáist til sólar á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og á Melrakkasléttu. Öll brúðhjónin ættu því að drífa sig á þessa staði, því það er gömul trú sem segir að hjónabandið verði eins og veðrið á brúðkaupsdaginn.
En að öðru, í gær hitti ég kappann Ingólf Friðriksson á msn. Hann er að vinna í Genf og við fórum auðvitað að tala um mat eins og oft áður, uppáhalds umræðuefnið okkar.
Ég sagði honum að ég hefði verið að enda við að borða sjófrystan þorsk sem mér var gefinn og þá fræddi hann mig á því að í einhverri fínni búð í Genf væri tvisvar í viku hægt að kaupa íslenskan fisk og hann kostaði ekki nema 3.000 kr. kílóið.
Af þessu spannst auðvitað umræða um okkar góða fisk, okkar góðu landbúnaðarvörur og okkar besta vatn í heimi.
Ef við erum til í að fórna landbúnaðinum og förum að kaupa allt ruslið frá meginlandinu væri þá ekki bara upplagt að flytja líka inn drykkjarvatn frá Evrópu? Það er í mínum huga svona næsti bær við að flytja inn landbúnaðarafurðir og fisk.

|