02 ágúst 2007

Mig langar í Hummer

Það er frekar stuttur hjá mér kveikjuþráðurinn núna.
Ég er með þrjú sett af iðnaðarmönnum að vinna fyrir mig og það eru tafir og seinkanir á öllum vígstöðum. Ég sem átti að leggjast undir kutann hjá doktor sæta Sívagó 20. ágúst, ég þori ekki öðru en að fresta því. Ekki verð ég nýskorin að koma mér fyrir í Skógarkotinu.
Nema hvað, það lá ekkert vel á mér í dag þegar ég brá mér út í sveit á honum Súbba mínum. Ég hef aldrei getað skilið hvað íslenskur meðaljón hefur við ökutæki af Hummergerð að gera. Ég get skilið að fólk í Írak eða Afganistan vill eiga svona stríðsjeppa, en ég hef ekki skilið hvað fólk á okkar friðsæla Fróni hefur við svona tæki að gera.
Þar til í dag, þá allt í einu sá ég að það sem mig vantar er Hummer og ekkert annað.
Ef við hér á Fljótsdalshéraði hættum okkur út á þjóðvegina þá er eins víst að við þurfum að keyra eins langt út í kant og þorandi er þegar við mætum steypubíl frá BM Vallá - þeir virðast telja sig vera að aka um á einkavegum, á húrrandi ferð á miðjum veginum. Við mætum stórum vörubílum, stórum flutningabílum og stórum flutningabílum með stóra tengivagna. Allir aka eins og þeir séu á einkavegi og að við almúginn séum bara að brjóta allar reglur með að nota þessa svokölluðu þjóðvegi.
Og nú hefur enn einn voðinn bæst við. Það eru þessir stóru, já og reyndar líka litlu, bílar sem aka um með alls konar vistarverur hangandi aftan í sér. Geta menn ekki orðið farið í sumarfrí nema með 50 m2 íbúð með sólpalli og heitum potti hangandi aftan í ökutæki sínu? Svo til að halda þessum lúxus íbúðarhótelum sínum á veginum þá náttúrlega aka menn á miðjum vegi.
Nei, nú ætla ég að safna mér fyrir Hummer, það er eina ökutækið sem við Héraðsmenn getum verið öryggir á hér í okkar heimabyggð.

|