08 september 2007

40 ár

Brá mér í höfuðstaðinn í gær.
Í 19.000 feta hæð á leiðinni heim í dag, var ég að hugsa um að það eru 40 ár síðan ég flaug fyrst. Það var vorið 1967 þegar ég, lítil Kópavogsdama, var send til sumardvalar hjá ættingjum austur á Borgarfirði. Flogið var frá Reykjavík til Egilsstaða og svo hef ég örugglega farið með Birni sólarhring á "rútunni" niður á Borgarfjörð. Alla vega ferðaðist ég oft með honum.
Ekki hef ég tölu á hvað ég hef oft flogið á þessum 40 árum, en oftast hef ég flogið milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Ég er örugglega búin að fljúga 10 sinnum á þessu ári og næsta hálfa mánuðinn flýg ég u.þ.b. 10 sinnum, samt ekki alltaf á milli Eg. og Rvk. Ég fer líka um flugvöllinn á Höfn, í Osló og Kastrupflugvöll.
En það er margt öðruvísi í dag en var þá. Flugstöðin hér var bara pínulítið hús og þar réði Þráinn Jónsson ríkjum. Það er enn verið að byggja við flugstöðina okkar. Bara að þeir væru svona framkvæmdaglaðir á Reykjavíkurflugvelli. Flugstöðin þar myndi sóma sér vel á Árbæjarsafni.
En samsetning farþega hefur líka breyst mikið. Í gamla daga voru mest bændur að fara í bændaferðir og svo útgerðamenn og síldarspekúlantar að ferðast. Kvenfélagshópar í leikhúsferðum og svo ein og ein krakkakind.
Í dag eru þetta verkfræðingar og aðrir sem tengjast framkvæmdunum hér. Það er oft að 90% farþega eru karlar.
Í dag var farþegahópurinn fjölbreyttari en oft áður. Fyrir utan að það voru margar konur í farþegarýminu, þá sátu þar einn munkur, tveir borðalagir flugmenn og ein flugfreyja. Ég held að það hafi samt örugglega verið annað fugmannasett í stjórnklefanum. Í það minnsta var önnur flugfreyja því hún fór um og bauð upp á kaffi.
En mikið afskaplega er gott að vera komin aftur heim i Skógarkot.

|